Add parallel Print Page Options

Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.

Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.

Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.

Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna.

Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna.

Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar.

Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti.

Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna.

Þú hefir rænt hjarta mínu, systir mín, brúður, þú hefir rænt hjarta mínu með einu augnatilliti þínu, með einni festi af hálsskarti þínu.

10 Hversu ljúf er ást þín, systir mín, brúður, hversu miklu dýrmætari er ást þín en vín og angan smyrsla þinna heldur en öll ilmföng.

11 Hunangsseimur drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk er undir tungu þinni, og ilmur klæða þinna er eins og Líbanonsilmur.

12 Lokaður garður er systir mín, brúður, lokuð lind, innsigluð uppspretta.

13 Frjóangar þínir eru lystirunnur af granateplatrjám með dýrum ávöxtum, kypurblóm og nardusgrös,

14 nardus og krókus, kalamus og kanel, ásamt alls konar reykelsisrunnum, myrra og alóe, ásamt alls konar ágætis ilmföngum.

15 Þú ert garðuppspretta, brunnur lifandi vatns og bunulækur ofan af Líbanon.

16 Vakna þú, norðanvindur, og kom þú, sunnanblær, blás þú um garð minn, svo að ilmur hans dreifist. Unnusti minn komi í garð sinn og neyti hinna dýru ávaxta hans.

Ég kom í garð minn, systir mín, brúður, ég tíndi myrru mína og balsam. Ég át hunangsköku mína og hunangsseim, ég drakk vín mitt og mjólk. Etið, vinir, drekkið, gjörist ástdrukknir.

Ég sef, en hjarta mitt vakir, heyr, unnusti minn drepur á dyr! "Ljúk upp fyrir mér, systir mín, vina mín, dúfan mín, ljúfan mín! Því að höfuð mitt er alvott af dögg, hárlokkar mínir af dropum næturinnar."

"Ég er komin úr kyrtlinum, hvernig ætti ég að fara í hann aftur? Ég hefi laugað fæturna, hvernig ætti ég að óhreinka þá aftur?"

Unnusti minn rétti höndina inn um gluggann, og hjarta mitt svall honum á móti.

Ég reis á fætur til þess að ljúka upp fyrir unnusta mínum, og myrra draup af höndum mínum og fljótandi myrra af fingrum mínum á handfang slárinnar.

Ég lauk upp fyrir unnusta mínum, en unnusti minn var farinn, horfinn. Ég stóð á öndinni meðan hann talaði. Ég leitaði hans, en fann hann ekki, ég kallaði á hann, en hann svaraði ekki.

Verðirnir sem ganga um borgina, hittu mig, þeir slógu mig, þeir særðu mig, verðir múranna sviptu slæðunum af mér.

Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Þegar þér finnið unnusta minn, hvað ætlið þér þá að segja honum? Að ég sé sjúk af ást!

Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, úr því þú særir oss svo?

10 Unnusti minn er mjallahvítur og rauður, hann ber af tíu þúsundum.

11 Höfuð hans er skíragull, hinir hrynjandi hárlokkar hans hrafnsvartir,

12 augu hans eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk, sett í umgjörð,

13 kinnar hans eins og balsambeð, er í vaxa kryddjurtir. Varir hans eru liljur, drjúpandi af fljótandi myrru.

14 Hendur hans eru gullkefli, sett krýsolítsteinum, kviður hans listaverk af fílabeini, lagt safírum.

15 Fótleggir hans eru marmarasúlur, sem hvíla á undirstöðum úr skíragulli, ásýndar er hann sem Líbanon, frábær eins og sedrustré.

16 Gómur hans er sætleikur, og allur er hann yndislegur. Þetta er unnusti minn og þetta er vinur minn, þér Jerúsalemdætur.