Add parallel Print Page Options

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

83 Ljóð. Asafs-sálmur.

Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!

Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,

þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.

Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"

Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:

Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,

Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.

Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]

10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,

11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.

12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,

13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."

14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.

15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,

16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.

17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!

18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,

19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.