Add parallel Print Page Options

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,

svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.

Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,

hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,

þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]

Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.

Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.

Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.

10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!

11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.

12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.

13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,

14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.

15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.

16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.

17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.

18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]