Add parallel Print Page Options

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.

Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.

Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.

Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.

Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!

Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!

Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.

10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.

48 Ljóð. Kóraítasálmur.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.

Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.

Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.

Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.

Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.

Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.

Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.

Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]

10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.

11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.

12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.

14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,

15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.