Add parallel Print Page Options

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.

Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.

Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.

Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.

Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.

En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."

Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.

Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:

10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?

11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"

12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,

13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.