Add parallel Print Page Options

143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.

Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.

Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.

Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]

Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.

Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.

10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.

12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.

144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.

Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.

Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.

Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.

Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.

Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.

Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.

Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.

10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.

11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.

13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,

14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.

15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.