Add parallel Print Page Options

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!