Add parallel Print Page Options

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _

þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.

Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,

en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.

Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.

Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.

Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,

og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.