Add parallel Print Page Options

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,

13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.

14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.

25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.

26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,

27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.

28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,

29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,

30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,

31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,

32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,

33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,

34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,

35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,

36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.

44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?

Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.

Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,

að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.

Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.

Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.

Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.

Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.

10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.

11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.

13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.

14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.

15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.

16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.

17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,

18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,

20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.

21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,

22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.

23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.

25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.

26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,

27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.

29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.

30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.

31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,

33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,

35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.

36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,

37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum

38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.

39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.