Sálmarnir 1-3
Icelandic Bible
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
by Icelandic Bible Society