Add parallel Print Page Options

Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann,

hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns,

þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum.

Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá.

Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans.

Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.

Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra,

þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.

Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni?

10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast!

11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni,

13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum,

14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur.

15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást.

16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð:

17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði,

18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka,

19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.

20 Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.

21 Fest þau á hjarta þitt stöðuglega, bind þau um háls þinn.

22 Þegar þú ert á gangi, þá leiði þau þig, þegar þú hvílist, vaki þau yfir þér, og þegar þú vaknar, þá ræði þau við þig.

23 Því að boðorð er lampi og viðvörun ljós og agandi áminningar leið til lífsins,

24 með því að þær varðveita þig fyrir vondri konu, fyrir hálli tungu hinnar lauslátu.

25 Girnst eigi fríðleik hennar í hjarta þínu og lát hana eigi töfra þig með augnahárum sínum.

26 Því að skækja fæst fyrir einn brauðhleif, og hórkona sækist eftir dýru lífi.

27 Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?

28 Eða getur nokkur gengið á glóðum án þess að brenna sig á fótunum?

29 Svo fer þeim, sem hefir mök við konu náunga síns, enginn sá kemst klakklaust af, sem hana snertir.

30 Fyrirlíta menn eigi þjófinn, þó að hann steli til þess að seðja hungur sitt?

31 Og náist hann, verður hann að borga sjöfalt, verður að láta allar eigur húss síns.

32 En sá sem drýgir hór með giftri konu, er vitstola, sá einn gjörir slíkt, er tortíma vill sjálfum sér.

33 Högg og smán mun hann hljóta, og skömm hans mun aldrei afmáð verða.

34 Því að afbrýði er karlmanns-reiði, og hann hlífir ekki á hefndarinnar degi.

35 Hann lítur ekki við neinum bótum og friðast eigi, þótt þú ryðjir í hann gjöfum.

Son minn, varðveit þú orð mín og geym þú hjá þér boðorð mín.

Varðveit þú boðorð mín, og þá munt þú lifa, og áminning mína eins og sjáaldur auga þíns.

Bind þau á fingur þína, skrifa þau á spjald hjarta þíns.

Seg við spekina: "Þú ert systir mín!" og kallaðu skynsemina vinkonu,

svo að þær varðveiti þig fyrir léttúðarkonu, fyrir blíðmálugri konu sem annar á.

Út um gluggann á húsi mínu, út um grindurnar skimaði ég

og sá þar meðal sveinanna ungan og vitstola mann.

Hann gekk á strætinu nálægt horni einu og fetaði leiðina að húsi hennar,

í rökkrinu, að kveldi dags, um miðja nótt og í niðdimmu.

10 Gekk þá kona í móti honum, búin sem portkona og undirförul í hjarta _

11 hávær er hún og óhemjuleg, fætur hennar tolla aldrei heima,

12 hún er ýmist á götunum eða á torgunum, og situr um menn hjá hverju horni _,

13 hún þrífur í hann og kyssir hann og segir við hann, ósvífin í bragði:

14 "Ég átti að greiða heillafórn, í dag hefi ég goldið heit mitt.

15 Fyrir því fór ég út til móts við þig, til þess að leita þín, og hefi nú fundið þig.

16 Ég hefi búið rúm mitt ábreiðum, marglitum ábreiðum úr egypsku líni.

17 Myrru, alóe og kanel hefi ég stökkt á hvílu mína.

18 Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum.

19 Því að maðurinn minn er ekki heima, hann er farinn í langferð.

20 Peningapyngjuna tók hann með sér, hann kemur ekki heim fyrr en í tunglfylling."

21 Hún tældi hann með sínum áköfu fortölum, ginnti hann með kjassmælum sínum.

22 Hann fer rakleiðis á eftir henni, eins og naut gengur fram á blóðvöllinn, og eins og hjörtur, sem anar í netið,

23 uns örin fer í gegnum lifur hans, eins og fuglinn hraðar sér í snöruna, og veit ekki, að líf hans er í veði.

24 Og nú, þér yngismenn, hlýðið á mig og gefið gaum að orðum munns míns.

25 Lát eigi hjarta þitt teygjast á vegu hennar, villst eigi inn á stigu hennar.

26 Því að margir eru þeir, sem hún hefir sært til ólífis, og mesti grúi allir þeir, sem hún hefir myrt.

27 Hús hennar er helvegur, er liggur niður til heimkynna dauðans.