Add parallel Print Page Options

32 Synir Rúbens og synir Gaðs áttu mikið kvikfé og mjög vænt, og er þeir litu Jaserland og Gíleaðland, sáu þeir að það var gott búfjárland.

Synir Gaðs og synir Rúbens komu þá og sögðu við þá Móse og Eleasar prest og höfuðsmenn safnaðarins á þessa leið:

"Atarót, Díbon, Jaser, Nimra, Hesbon, Eleale, Sebam, Nebó og Beón,

landið, sem Drottinn vann fyrir söfnuði Ísraels, er búfjárland gott, og þjónar þínir eiga búfé."

Og þeir sögðu: "Ef vér höfum fundið náð í augum þínum, þá fái þjónar þínir land þetta til eignar. Far eigi með oss yfir Jórdan."

Þá sagði Móse við sonu Gaðs og sonu Rúbens: "Eiga bræður yðar að fara í hernað, en þér setjast hér að?

Hví teljið þér hug úr Ísraelsmönnum að fara yfir um, inn í landið, sem Drottinn hefir gefið þeim?

Svo gjörðu og feður yðar, þá er ég sendi þá frá Kades Barnea til að skoða landið.

Þeir fóru alla leið norður í Eskóldal og skoðuðu landið, en töldu svo hug úr Ísraelsmönnum, að þeir vildu ekki fara inn í landið, sem Drottinn hafði gefið þeim.

10 Þann dag upptendraðist reiði Drottins, svo að hann sór og sagði:

11 ,Þeir menn, er fóru af Egyptalandi tvítugir og þaðan af eldri, skulu ekki fá að sjá landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, því að þeir hafa ekki fylgt mér trúlega,

12 nema Kaleb Jefúnneson Kenissíti og Jósúa Núnsson, því að þeir hafa trúlega fylgt Drottni.`

13 Og reiði Drottins upptendraðist gegn Ísrael og hann lét þá reika um eyðimörkina í fjörutíu ár, þar til er öll sú kynslóð var liðin undir lok, er gjört hafði það, sem illt var fyrir augliti Drottins.

14 Og sjá, nú hafið þér risið upp í stað feðra yðar, þér afsprengi syndugra manna, til þess að gjöra hina brennandi reiði Drottins gegn Ísrael enn þá meiri.

15 Ef þér snúið yður frá honum, þá mun hann láta þá reika enn lengur um eyðimörkina, og þér munuð steypa öllum þessum lýð í glötun."

16 Þeir gengu til hans og sögðu: "Vér viljum byggja hér fjárbyrgi fyrir búsmala vorn og bæi handa börnum vorum.

17 En sjálfir munum vér fara vígbúnir fyrir Ísraelsmönnum, þar til er vér höfum komið þeim á sinn stað. En börn vor skulu búa í víggirtum borgum, sökum íbúa landsins.

18 Eigi munum vér snúa heim aftur fyrr en Ísraelsmenn hafa hlotið hver sinn erfðahlut.

19 Vér munum eigi taka eignarland með þeim þar hinumegin Jórdanar, því að vér höfum hlotið til eignar landið hér austanmegin Jórdanar."

20 Þá sagði Móse við þá: "Ef þér viljið gjöra þetta, ef þér viljið búast til bardaga fyrir augliti Drottins,

21 og ef sérhver vígbúinn maður meðal yðar fer yfir Jórdan fyrir augliti Drottins, uns hann hefir rekið óvini sína burt frá sér,

22 og þér snúið ekki aftur fyrr en landið er undirokað fyrir augliti Drottins, þá skuluð þér vera sýknir saka fyrir Drottni og fyrir Ísrael, og land þetta skal verða yðar eign fyrir augliti Drottins.

23 En ef þér gjörið eigi svo, sjá, þá syndgið þér gegn Drottni, og þér munuð fá að kenna á synd yðar, er yður mun í koll koma.

24 Byggið yður bæi handa börnum yðar og byrgi handa fé yðar, og gjörið svo sem þér hafið látið um mælt."

25 Þá sögðu synir Gaðs og synir Rúbens við Móse: "Þjónar þínir munu gjöra eins og þú býður, herra.

26 Börn vor, konur vorar, fénaður vor og allir eykir vorir skulu verða eftir hér í bæjunum í Gíleað.

27 En þjónar þínir skulu fara yfir um, allir þeir sem herbúnir eru, fyrir augliti Drottins til hernaðar, eins og þú býður, herra."

28 Og Móse gaf Eleasar presti, Jósúa Núnssyni og ætthöfðingjum Ísraelsmanna skipun um þá

29 og sagði við þá: "Ef synir Gaðs og synir Rúbens, allir þeir sem vígbúnir eru, fara með yður yfir Jórdan til hernaðar fyrir augliti Drottins og þér undirokið landið, þá gefið þeim Gíleaðland til eignar.

30 En ef þeir fara eigi vígbúnir yfir um með yður, þá skulu þeir fá eignarlönd með yður í Kanaanlandi."

31 Synir Gaðs og synir Rúbens svöruðu og sögðu: "Það sem Drottinn hefir sagt þjónum þínum, það viljum vér gjöra.

32 Vér viljum fara yfir um vígbúnir fyrir augliti Drottins, inn í Kanaanland, en óðalseign vor skal vera fyrir handan Jórdan."

33 Þá fékk Móse þeim sonum Gaðs, sonum Rúbens og hálfri ættkvísl Manasse Jósefssonar konungsríki Síhons Amorítakonungs og konungsríki Ógs, konungs í Basan, landið og borgirnar í því, ásamt umhverfunum, borgir landsins allt í kring.

34 Þá reistu synir Gaðs Díbon, Atarót, Aróer,

35 Aterót Sófan, Jaser, Jogbeha,

36 Bet Nimra og Bet Haran. Voru það víggirtar borgir og fjárbyrgi.

37 Synir Rúbens reistu Hesbon, Eleale, Kirjataím,

38 Nebó, Baal Meon, með breyttu nafni, og Síbma, og þeir gáfu borgunum, er þeir reistu, ný nöfn.

39 Synir Makírs Manassesonar fóru til Gíleað og unnu það og ráku burt Amoríta, sem þar voru.

40 Og Móse fékk Makír Manassesyni Gíleað, og festi hann þar byggð.

41 En Jaír, sonur Manasse, fór og vann þorp þeirra og nefndi það Jaírs-þorp.

42 Og Nóba fór og vann Kenat og borgirnar þar umhverfis og nefndi það Nóba eftir nafni sínu.

33 Þessir voru áfangar Ísraelsmanna, er þeir fóru af Egyptalandi, hver hersveit fyrir sig, undir forystu þeirra Móse og Arons.

Móse færði í letur að boði Drottins staðina, sem þeir lögðu upp frá, eftir áföngum þeirra, og þessir voru áfangar þeirra frá einum áfangastað til annars:

Þeir lögðu upp frá Ramses í fyrsta mánuðinum, á fimmtánda degi hins fyrsta mánaðar. Daginn eftir páska lögðu Ísraelsmenn af stað óhikað, að Egyptum öllum ásjáandi,

meðan Egyptar voru að jarða alla frumburðina, er Drottinn hafði fyrir þeim deytt, og Drottinn hafði látið refsidóma ganga yfir goð þeirra.

Ísraelsmenn lögðu upp frá Ramses og settu búðir sínar í Súkkót.

Þeir lögðu upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.

Þeir lögðu upp frá Etam og sneru leið sinni til Pí-Hakírót, sem er fyrir austan Baal Sefón, og settu búðir sínar fyrir austan Mígdól.

Þeir lögðu upp frá Pí-Hakírót og fóru þvert yfir hafið inn í eyðimörkina. Og þeir fóru þriggja daga leið í Etameyðimörk og settu búðir sínar í Mara.

Þeir lögðu upp frá Mara og komu til Elím. En í Elím voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmaviðir. Þar settu þeir búðir sínar.

10 Þeir lögðu upp frá Elím og settu búðir sínar við Sefhafið.

11 Þeir lögðu upp frá Sefhafinu og settu búðir sínar í Síneyðimörk.

12 Þeir lögðu upp frá Síneyðimörk og settu búðir sínar í Dofka.

13 Þeir lögðu upp frá Dofka og settu búðir sínar í Alús.

14 Þeir lögðu upp frá Alús og settu búðir sínar í Refídím. Þar hafði lýðurinn ekki vatn að drekka.

15 Þeir lögðu upp frá Refídím og settu búðir sínar í Sínaí-eyðimörk.

16 Þeir lögðu upp frá Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í Kibrót-hattava.

17 Þeir lögðu upp frá Kibrót-hattava og settu búðir sínar í Haserót.

18 Þeir lögðu upp frá Haserót og settu búðir sínar í Ritma.

19 Þeir lögðu upp frá Ritma og settu búðir sínar í Rimmón Peres.

20 Þeir lögðu upp frá Rimmón Peres og settu búðir sínar í Líbna.

21 Þeir lögðu upp frá Líbna og settu búðir sínar í Ríssa.

22 Þeir lögðu upp frá Ríssa og settu búðir sínar í Kehelata.

23 Þeir lögðu upp frá Kehelata og settu búðir sínar á Seferfjalli.

24 Þeir lögðu upp frá Seferfjalli og settu búðir sínar í Harada.

25 Þeir lögðu upp frá Harada og settu búðir sínar í Makhelót.

26 Þeir lögðu upp frá Makhelót og settu búðir sínar í Tahat.

27 Þeir lögðu upp frá Tahat og settu búðir sínar í Tera.

28 Þeir lögðu upp frá Tera og settu búðir sínar í Mitka.

29 Þeir lögðu upp frá Mitka og settu búðir sínar í Hasmóna.

30 Þeir lögðu upp frá Hasmóna og settu búðir sínar í Móserót.

31 Þeir lögðu upp frá Móserót og settu búðir sínar í Bene Jaakan.

32 Þeir lögðu upp frá Bene Jaakan og settu búðir sínar í Hór Haggiðgað.

33 Þeir lögðu upp frá Hór Haggiðgað og settu búðir sínar í Jotbata.

34 Þeir lögðu upp frá Jotbata og settu búðir sínar í Abróna.

35 Þeir lögðu upp frá Abróna og settu búðir sínar í Esjón Geber.

36 Þeir lögðu upp frá Esjón Geber og settu búðir sínar í Síneyðimörk, það er Kades.

37 Þeir lögðu upp frá Kades og settu búðir sínar á Hórfjalli, á landamærum Edómlands.

38 Og Aron prestur fór að boði Drottins upp á Hórfjall og andaðist þar á fertugasta ári eftir brottför Ísraelsmanna af Egyptalandi, í fimmta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins.

39 Aron var hundrað tuttugu og þriggja ára, þegar hann andaðist á Hórfjalli.

40 Og Kanaanítinn, konungurinn í Arad, sem bjó í suðurhluta Kanaanlands, spurði komu Ísraelsmanna.

41 Þeir lögðu upp frá Hórfjalli og settu búðir sínar í Salmóna.

42 Þeir lögðu upp frá Salmóna og settu búðir sínar í Fúnón.

43 Þeir lögðu upp frá Fúnón og settu búðir sínar í Óbót.

44 Þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje Haabarím, Móabslandi.

45 Þeir lögðu upp frá Íjím og settu búðir sínar í Díbon Gað.

46 Þeir lögðu upp frá Díbon Gað og settu búðir sínar í Almón Díblataím.

47 Þeir lögðu upp frá Almón Díblataím og settu búðir sínar í Abarímfjöllum, fyrir austan Nebó.

48 Þeir lögðu upp frá Abarímfjöllum og settu búðir sínar á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó.

49 Settu þeir búðir sínar við Jórdan frá Bet Hajesímót til Abel Hasittím á Móabsheiðum.

50 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði:

51 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland,

52 skuluð þér stökkva burt undan yður öllum íbúum landsins og eyða öllum myndasteinum þeirra, þér skuluð og eyða öllum steyptum goðalíkneskjum þeirra og leggja fórnarhæðir þeirra í eyði.

53 Og þér skuluð kasta eign yðar á landið og festa byggð í því, því að yður hefi ég gefið landið til eignar.

54 Og þér skuluð fá erfðahluti í landinu eftir hlutkesti, hver ættkvísl fyrir sig. Þeirri ættkvísl, sem mannmörg er, skuluð þér fá mikinn erfðahlut, en þeirri, sem fámenn er, skuluð þér fá lítinn erfðahlut. Þar sem hlutur hvers eins fellur, það skal verða hans, eftir kynkvíslum feðra yðar skuluð þér fá það í erfðahlut.

55 En ef þér stökkvið ekki íbúum landsins burt undan yður, þá munu þeir af þeim, er þér skiljið eftir, verða þyrnar í augum yðar og broddar í síðum yðar, og þeir munu veita yður þungar búsifjar í landinu, sem þér búið í,

56 og þá mun svo fara, að ég mun gjöra svo við yður sem ég hafði fyrirhugað að gjöra við þá."

34 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þegar þér komið inn í Kanaanland, þá skal það vera landið, sem þér hljótið til eignar, Kanaanland til ystu ummerkja.

Suðurhliðin skal vera: frá Síneyðimörk meðfram Edóm. Og austurendi suðurtakmarkanna skal vera suðurendi Dauðahafs.

Þaðan skulu takmörkin liggja í boga fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og ná yfir til Sín og endir þeirra vera fyrir sunnan Kades Barnea. Skulu þau liggja til Hasar Addar og ná yfir til Asmón.

Frá Asmón skulu takmörkin liggja í boga til Egyptalandsár og alla leið til sjávar.

Að vesturtakmörkum skuluð þér hafa hafið mikla; þetta skulu vera vesturtakmörkin.

Norðurtakmörkin skulu vera þessi: Frá hafinu mikla skuluð þér taka stefnu á Hórfjall.

Frá Hórfjalli skuluð þér taka stefnu þangað sem leið liggur til Hamat, og þaðan alla leið til Sedad.

Skulu takmörkin ná til Sífrón og enda í Hasar Enan. Þetta skulu vera landamerki yðar að norðanverðu.

10 Að austanverðu skuluð þér setja merkjalínuna frá Hasar Enan til Sefam.

11 En frá Sefam skulu landamerkin liggja suður til Ribla, fyrir austan Aín. Þaðan skulu landamerkin liggja niður eftir og nema við fjallhrygginn fyrir austan Genesaretvatn.

12 Og landamerkin skulu liggja niður með Jórdan og enda við Dauðahafið. Þessi skulu merki vera lands yðar hringinn í kring."

13 Og Móse bauð Ísraelsmönnum og sagði: "Þetta er landið, sem þér skuluð fá til eignar með hlutkesti og Drottinn bauð að gefa níu ættkvíslunum og hálfri.

14 Því að ættkvísl Rúbens sona, hver ætt fyrir sig, og ættkvísl Gaðs sona, hver ætt fyrir sig, og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn eignarhluta.

15 Tvær ættkvíslirnar og hálf hafa fengið sinn eignarhluta hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó, austanmegin."

16 Drottinn talaði við Móse og sagði:

17 "Þessi eru nöfn þeirra manna, er skipta skulu landinu milli yðar: Eleasar prestur og Jósúa Núnsson

18 og einn höfðingi af ættkvísl hverri til að skipta landinu,

19 og þessi eru nöfn þeirra: af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson,

20 af ættkvísl Símeons sona: Samúel Ammíhúdsson,

21 af ættkvísl Benjamíns: Elídad Kislónsson,

22 af ættkvísl Dans sona: Búkí Joglíson höfðingi,

23 af sonum Jósefs: af ættkvísl Manasse sona: Hanníel Efóðsson höfðingi,

24 af ættkvísl Efraíms sona: Kemúel Siftansson höfðingi;

25 af ættkvísl Sebúlons sona: Elísafan Parnaksson höfðingi,

26 af ættkvísl Íssakars sona: Paltíel Asansson höfðingi,

27 af ættkvísl Assers sona: Akíhúð Selómíson höfðingi,

28 af ættkvísl Naftalí sona: Pedahel Ammíhúdsson höfðingi."

29 Þessir voru þeir, er Drottinn bauð að skipta skyldu landeignum milli Ísraelsmanna í Kanaanlandi.