Add parallel Print Page Options

15 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður til bólfestu,

og þér færið Drottni eldfórn, hvort heldur er brennifórn eða sláturfórn, til að efna heit eða í sjálfviljafórn eða í tilefni af löghátíðum yðar, til þess að gjöra Drottni þægilegan ilm af nautum eða sauðfénaði,

þá skal sá, er færir Drottni fórnargjöf sína, jafnframt bera fram í matfórn einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við einn fjórða part úr hín af olíu.

En af víni í dreypifórn skalt þú fórna einum fjórða parti úr hín með brennifórn eða sláturfórn með hverri sauðkind.

Eða sé það með hrút, þá skalt þú fórna tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við þriðjung hínar af olíu í matfórn,

en af víni í dreypifórn þriðjung hínar. Skalt þú fram bera það sem þægilegan ilm Drottni til handa.

Og þegar þú fórnar ungneyti í brennifórn eða sláturfórn til þess að efna heit eða í heillafórn Drottni til handa,

þá skal fram bera í matfórn með ungneytinu þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við hálfa hín af olíu,

10 en af víni skalt þú fram bera í dreypifórn hálfa hín sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.

11 Skal svo gjört við sérhvern uxa, sérhvern hrút, við sérhvert lamb, hvort heldur er af sauðkindum eða geitum.

12 Eftir tölunni á því, sem þér fórnið, skuluð þér svo gjöra við hverja skepnu eftir tölu þeirra.

13 Sérhver innborinn maður skal fara eftir þessu, þegar hann færir Drottni eldfórn þægilegs ilms.

14 Og ef útlendingur dvelur um hríð meðal yðar eða einhver, sem tekið hefir sér fastan bústað meðal yðar, og hann fórnar Drottni eldfórn þægilegs ilms, þá skal hann gjöra svo sem þér gjörið.

15 Að því er söfnuðinn snertir, þá skulu vera ein lög bæði fyrir yður og útlendan mann, er hjá yður dvelur. Er það ævarandi lögmál frá kyni til kyns. Fyrir Drottni gildir hið sama um útlendan mann sem um yður.

16 Ein lög og einn réttur skal vera bæði fyrir yður og útlendan mann, sem með yður dvelur."

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

18 "Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Þegar þér komið í land það, er ég mun leiða yður inn í,

19 þá skuluð þér færa Drottni fórn, er þér etið af brauði landsins.

20 Sem frumgróða af deigi yðar skuluð þér fórna köku að fórnargjöf. Eins og fórnargjöfinni af láfanum, svo skuluð þér fórna henni.

21 Af frumgróðanum af deigi yðar skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf frá kyni til kyns.

22 Ef yður yfirsést og þér haldið eigi öll þessi boðorð, sem Drottinn hefir lagt fyrir Móse,

23 allt það sem Drottinn hefir boðið yður fyrir munn Móse, frá þeim degi, er Drottinn bauð það og upp frá því, frá kyni til kyns,

24 og ef misgjörðin er framin án þess söfnuðurinn viti af, þá skal allur söfnuðurinn fórna ungneyti í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin, ásamt matfórn og dreypifórn, er því fylgja, að réttum sið, og geithafri í syndafórn.

25 Og presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna, og þeim mun fyrirgefið verða. Því að það var yfirsjón, og þeir hafa fram borið fórnargjöf sína, eldfórn Drottni til handa, svo og syndafórn sína, fram fyrir Drottin vegna yfirsjónar sinnar.

26 Og öllum söfnuði Ísraelsmanna mun fyrirgefið verða, svo og útlendum manni, er meðal yðar dvelur, því að yfirsjónin féll á allan söfnuðinn.

27 Ef einhver maður syndgar af vangá, skal hann fórna veturgamalli geit í syndafórn.

28 Og presturinn skal frammi fyrir Drottni friðþægja fyrir þann, er yfirsjón hefir hent og syndgað hefir af vangá, til þess að friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða.

29 Þér skuluð hafa ein lög fyrir þann, er gjörir eitthvað af vangá, bæði fyrir mann innborinn meðal Ísraelsmanna og fyrir útlending, er dvelur meðal þeirra.

30 En sá maður, er fremur eitthvað af ásetningi, hvort heldur er innborinn maður eða útlendingur, hann smánar Drottin, og skal sá maður upprættur verða úr þjóð sinni,

31 því að hann hefir virt orð Drottins að vettugi og brotið boðorð hans. Slíkur maður skal vægðarlaust upprættur verða; misgjörð hans hvílir á honum."

32 Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi.

33 Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn.

34 Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara.

35 En Drottinn sagði við Móse: "Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar."

36 Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

37 Drottinn talaði við Móse og sagði:

38 "Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá, að þeir skuli gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna, frá kyni til kyns, og festa snúru af bláum purpura við skautskúfana.

39 Og það skal vera yður merkiskraut: Þegar þér horfið á það, skuluð þér minnast allra boðorða Drottins, svo að þér breytið eftir þeim og hlaupið ekki eftir fýsnum hjarta yðar né augna, en með því leiðist þér til hjáguðadýrkunar.

40 Þannig skuluð þér muna öll mín boðorð og breyta eftir þeim og vera heilagir fyrir Guði yðar.

41 Ég er Drottinn Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Ég er Drottinn Guð yðar."

16 Kóra, sonur Jísehars, Kahats sonar, Leví sonar, gjörði uppreisn, ásamt þeim Datan og Abíram, sonum Elíabs, Pallú sonar, Rúbens sonar.

Þeir risu upp í móti Móse og með þeim tvö hundruð og fimmtíu manns af Ísraelsmönnum. Voru það höfuðsmenn safnaðarins og fulltrúar, nafnkunnir menn.

Þeir söfnuðust saman í gegn þeim Móse og Aroni og sögðu við þá: "Nú er nóg komið! Allur söfnuðurinn er heilagur, og Drottinn er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?"

Er Móse heyrði þetta, féll hann fram á ásjónu sína.

Því næst mælti hann við Kóra og allan flokk hans og sagði: "Á morgun mun Drottinn kunnugt gjöra, hver hans er og hver heilagur er og hvern hann lætur nálgast sig. Og þann sem hann kýs sér, mun hann láta nálgast sig.

Gjörið þetta: Takið yður eldpönnur, Kóra og allur flokkur hans,

látið eld í þær og leggið á reykelsi fyrir augliti Drottins á morgun. Og sá, sem Drottinn kýs sér, hann skal vera heilagur. Nú er nóg komið, Leví synir!"

Móse sagði við Kóra: "Heyrið, Leví synir!

Sýnist yður það lítils vert, að Ísraels Guð greindi yður frá söfnuði Ísraels til þess að láta yður nálgast sig, til þess að þér skylduð gegna þjónustu við búð Drottins og standa frammi fyrir söfnuðinum til að þjóna honum?

10 Og hann lét þig nálgast sig og alla bræður þína, Leví sonu, með þér, og nú viljið þér einnig ná í prestsembættið!

11 Fyrir því hefir þú og allur þinn flokkur gjört samblástur í gegn Drottni, því að hvað er Aron, að þér möglið í gegn honum?"

12 Og Móse lét kalla þá Datan og Abíram, Elíabs sonu, en þeir svöruðu: "Eigi munum vér koma.

13 Sýnist þér það lítils vert, að þú leiddir oss brott úr því landi, er flýtur í mjólk og hunangi, til þess að láta oss deyja í eyðimörkinni, úr því þú vilt einnig gjörast drottnari yfir oss?

14 Þú hefir og eigi leitt oss inn í land, er flýtur í mjólk og hunangi, né gefið oss akra og víngarða til eignar. Hvort ætlar þú, að þú megir stinga augun úr mönnum þessum? Eigi munum vér koma!"

15 Þá varð Móse afar reiður og sagði við Drottin: "Lít ekki við fórn þeirra! Eigi hefi ég tekið svo mikið sem asna frá þeim né gjört nokkrum þeirra mein."

16 Þá sagði Móse við Kóra: "Þú og allur flokkur þinn skuluð á morgun koma fram fyrir Drottin, þú og þeir og Aron.

17 Og takið hver sína eldpönnu og leggið á reykelsi og færið því næst hver sína eldpönnu fram fyrir Drottin _ tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þú og Aron skuluð og hafa hver sína eldpönnu."

18 Tóku þeir nú hver sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu á reykelsi. Og þeir námu staðar fyrir dyrum samfundatjaldsins, svo og þeir Móse og Aron.

19 Og Kóra safnaði í móti þeim öllum flokki sínum fyrir dyrum samfundatjaldsins. Þá birtist dýrð Drottins öllum söfnuðinum,

20 og Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði:

21 "Skiljið ykkur frá þessum hóp, og mun ég á augabragði eyða þeim."

22 En Móse og Aron féllu fram á ásjónur sínar og sögðu: "Guð, Guð lífsandans í öllu holdi! Hvort munt þú reiðast öllum söfnuðinum, þótt einn maður syndgi?"

23 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:

24 "Mæl þú til safnaðarins og seg: Farið burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams."

25 Móse stóð upp og gekk til Datans og Abírams, og öldungar Ísraels fylgdu honum.

26 Og hann talaði til safnaðarins og sagði: "Víkið burt frá tjöldum þessara óguðlegu manna, og komið ekki nærri neinu því, er þeir eiga, að þér farist eigi vegna allra synda þeirra."

27 Fóru þeir þá burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams. En þeir Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu úti fyrir tjalddyrum sínum og konur þeirra, synir og ungbörn.

28 Móse mælti þá: "Af þessu skuluð þér vita mega, að Drottinn hefir sent mig til að gjöra öll þessi verk, og að ég hefi eigi gjört þau eftir hugþótta mínum.

29 Ef þessir menn deyja á sama hátt og allir menn eru vanir að deyja, og verði þeir fyrir hinu sama, sem allir menn verða fyrir, þá hefir Drottinn ekki sent mig.

30 En ef Drottinn gjörir nýjan hlut og jörðin lýkur upp munni sínum og svelgir þá og allt, sem þeir eiga, svo að þeir fara lifandi niður til Heljar, þá megið þér af því marka, að þessir menn hafa smáð Drottin."

31 Og er hann hafði lokið máli sínu, þá sprakk jörðin undir fótum þeirra,

32 og jörðin opnaði munn sinn og svalg þá og fjölskyldur þeirra, svo og alla menn Kóra og allan fjárhlut þeirra.

33 Og þeir fóru lifandi niður til Heljar og allt, sem þeir áttu, og jörðin luktist saman yfir þeim, og þeir fórust mitt úr söfnuðinum.

34 En allur Ísrael, er umhverfis þá var, flýði við óp þeirra, því að þeir hugsuðu: Ella mun jörðin svelgja oss.

35 Og eldur gekk út frá Drottni og eyddi þeim tvö hundruð og fimmtíu mönnum, er báru fram reykelsið.

36 Drottinn talaði við Móse og sagði:

37 "Seg þú Eleasar, syni Arons prests, að hann skuli taka eldpönnurnar út úr brunanum, en dreif þú eldinum langt burt, því að þær eru heilagar.

38 Eldpönnur þessara syndara, sem fyrirgjört hafa lífi sínu, skulu beittar út í þunnar plötur og klætt með þeim altarið, því að þeir báru þær fram fyrir Drottin, og eru þær því heilagar. Skulu þær vera Ísraelsmönnum til tákns."

39 Eleasar prestur tók eirpönnurnar, er þeir höfðu borið fram, sem brunnið höfðu, og hann beitti þær út og klæddi með þeim altarið,

40 Ísraelsmönnum til minningar um það, að enginn annarlegur maður, sem eigi er af ætt Arons, má ganga fram til þess að bera reykelsi fram fyrir Drottin, að eigi fari eins fyrir honum og Kóra og flokki hans, eins og Drottinn hafði sagt honum fyrir munn Móse.

41 Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: "Þið hafið myrt lýð Drottins!"

42 En er múgurinn safnaðist saman í gegn þeim Móse og Aroni, varð þeim litið til samfundatjaldsins, og sjá, skýið huldi það og dýrð Drottins birtist.

43 Gengu þeir Móse og Aron þá fram fyrir samfundatjaldið.

44 Drottinn talaði við Móse og sagði:

45 "Víkið burt frá þessum söfnuði, og mun ég eyða honum á augabragði!" En þeir féllu fram á ásjónur sínar.

46 Og Móse sagði við Aron: "Tak eldpönnuna og lát eld í hana af altarinu, legg á reykelsi og far í skyndi til safnaðarins og friðþæg fyrir hann, því að reiði er út gengin frá Drottni, plágan byrjuð."

47 Aron tók hana, eins og Móse bauð, og hljóp inn í miðjan söfnuðinn, og sjá, plágan var byrjuð meðal fólksins. Og hann lagði á reykelsið og friðþægði fyrir lýðinn.

48 Og er hann stóð milli hinna dauðu og hinna lifandi, þá staðnaði plágan.

49 En þeir sem fórust í plágunni, voru fjórtán þúsundir og sjö hundruð, auk þeirra er fórust sökum Kóra.

50 Og Aron gekk aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins, og var plágan stöðnuð.