Add parallel Print Page Options

17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.

Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.

Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.

Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.

Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."

En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."

10 Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

11 Hann svaraði: "Víst kemur Elía og færir allt í lag.

12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra."

13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara.

14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum

15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.

16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."

17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."

18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.

19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"

20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [

21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"

22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur,

23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa." Þeir urðu mjög hryggir.

24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?"

25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"

26 "Af vandalausum," sagði Pétur. Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls.

27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."

Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.

Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn.

Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.

Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.

Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.

10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.

11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,

13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum.

14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs

15 og sagði: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu."

16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

17 Jesús sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.

19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net.

20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.

21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi.

22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.

23 Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti:

24 "Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

25 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum."

26 Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum.

27 Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: "Hvað er þetta? Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum."

28 Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu.

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: "Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!"

42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn.

43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann

44 og sagði: "Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.