Markúsarguðspjall 12:1-9
Icelandic Bible
12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
2 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.
3 En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.
4 Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.
5 Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.
6 Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`
7 En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`
8 Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.
9 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.
Read full chapter
Matteusarguðspjall 21:33-41
Icelandic Bible
33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.
35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.
36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.
37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn.
38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.`
39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?"
41 Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma."
Read full chapter
Lúkasarguðspjall 20:9-16
Icelandic Bible
9 Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: "Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala.
10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan.
11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan.
12 Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út.
13 Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.`
14 En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.`
15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá?
16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn." Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: "Verði það aldrei."
Read full chapterby Icelandic Bible Society