Add parallel Print Page Options

24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann.

25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.

26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.

27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.

28 Hún hugsaði: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."

29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.

30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: "Hver snart klæði mín?"

31 Lærisveinar hans sögðu við hann: "Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?"

32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,

33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.

34 Jesús sagði við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna."

Read full chapter