Add parallel Print Page Options

Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona.

Hún grætur sáran um nætur, og tárin streyma ofan vanga hennar. Enginn er sá er huggi hana af öllum ástmönnum hennar. Allir vinir hennar hafa brugðist henni, þeir eru orðnir óvinir hennar.

Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum.

Vegirnir til Síonar syrgja, af því að engir koma til hátíðahalds. Öll hlið hennar eru eydd, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og sjálf er hún hrygg í hjarta.

Fjendur hennar eru orðnir ofan á, óvinir hennar lifa ánægðir. Því að Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda, börn hennar fóru burt herleidd fyrir kúgaranum.

Þannig fór burt frá Síonarborg allt skraut hennar. Höfðingjar hennar eru orðnir eins og hrútar, sem ekkert haglendi finna, og þeir fóru magnþrota burt fyrir ofsóknaranum.

Jerúsalem minnist á eymdardögum sínum og mæðudögum allra kjörgripa sinna, er hún átti forðum daga. Þegar lýður hennar féll í hendur kúgarans, hjálpaði enginn henni. Kúgararnir horfðu á það, hlógu að hrakförum hennar.

Jerúsalem hefir syndgað stórlega, fyrir því varð hún að viðurstyggð. Allir þeir er dáðu hana, fyrirlíta hana, af því að þeir hafa séð blygðan hennar, og hún andvarpar sjálf og snýr sér undan.

Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar, hún hugsaði ekki um endalokin. Hún féll undradjúpt, enginn verður til að hugga hana. Lít, Drottinn, á eymd mína, því að óvinirnir hrósa sigri.

10 Kúgarinn rétti út hönd sína eftir öllum dýrgripum hennar. Já, hún sá, hversu heiðingjarnir gengu inn í helgidóm hennar, sem þú hefir um boðið: "Þeir skulu ekki koma í söfnuð þinn."

11 Allur lýður hennar andvarpar, leitar sér viðurværis, gefur dýrgripi sína fyrir matbjörg til þess að draga fram lífið. Sjá þú, Drottinn, og lít á, hversu ég er fyrirlitin.

12 Komið til mín allir þér, sem um veginn farið, sjáið og skoðið, hvort til sé önnur eins kvöl og mín, sú er mér hefir verið gjörð, mér, sem Drottinn hrelldi á degi sinnar brennandi reiði.

13 Af hæðum sendi hann eld og lét hann fara niður í bein mín, lagði net fyrir fætur mér, rak mig aftur, gjörði mig auða, sífelldlega sjúka.

14 Ok synda minna er þungt orðið fyrir hendi hans. Þær eru bundnar saman, lagðar mér á háls, hann hefir lamað þrótt minn. Drottinn hefir selt mig í hendur þeirra, er ég fæ eigi staðist í móti.

15 Drottinn hefir hafnað hetjum mínum, öllum þeim, er í mér voru, hann hefir boðað hátíð gegn mér til þess að knosa æskumenn mína. Drottinn hefir troðið vínlagarþró meynni Júda-dóttur.

16 Yfir þessu græt ég, augu mín fljóta í tárum. Því að huggarinn er langt í burtu frá mér, sá er hressti sál mína. Börn mín eru komin í örbirgð, því að óvinirnir báru hærri hlut.

17 Síon réttir út hendur sínar, enginn verður til að hugga hana. Drottinn bauð út á móti Jakob fjendum hans allt í kring. Jerúsalem er orðin að viðurstyggð meðal þeirra.

18 Drottinn er réttlátur, því að ég þrjóskaðist gegn boði hans. Ó, heyrið það, allir lýðir, og sjáið kvöl mína. Meyjar mínar og yngismenn fóru burt herleidd.

19 Ég kallaði á ástmenn mína, þeir sviku mig. Prestar mínir og öldungar önduðust í borginni, þá er þeir leituðu sér bjargar til þess að draga fram lífið.

20 Sjá, Drottinn, hve ég er hrædd, hve iður mín ólga. Hjartað berst í brjósti mér, því að ég var svo þverúðarfull. Sverðið svipti mig börnunum úti fyrir, drepsóttin í húsum inni.

21 Þeir heyrðu, hversu ég andvarpaði, enginn varð til að hugga mig. Allir óvinir mínir spurðu óhamingju mína, glöddust, af því að þú hefir gjört þetta. Þú lætur þann dag koma, er þú hefir boðað, þá verða þeir jafningjar mínir.

22 Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt, og gjör við þá, eins og þú hefir gjört við mig vegna allra synda minna. Því að andvörp mín eru mörg, og hjarta mitt er sjúkt.

Æ, hversu hylur Drottinn í reiði sinni dótturina Síon skýi. Frá himni varpaði hann til jarðar vegsemd Ísraels og minntist ekki fótskarar sinnar á degi reiði sinnar.

Vægðarlaust eyddi Drottinn öll beitilönd Jakobs, reif niður í bræði sinni vígi Júda-dóttur, varpaði til jarðar, vanhelgaði ríkið og höfðingja þess,

hjó af í brennandi reiði öll horn Ísraels, dró að sér hægri hönd sína frammi fyrir óvinunum og brenndi Jakob eins og eldslogi, sem eyðir öllu umhverfis.

Hann benti boga sinn eins og óvinur, hægri hönd hans stóð föst eins og mótstöðumaður og myrti allt sem auganu var yndi í tjaldi dótturinnar Síon, jós út heift sinni eins og eldi.

Drottinn kom fram sem óvinur, eyddi Ísrael, eyddi allar hallir hans, umturnaði virkjum hans og hrúgaði upp í Júda-dóttur hryggð og harmi.

Hann hefir rifið niður skála sinn eins og garð, umturnað hátíðastað sínum. Drottinn lét gleymast í Síon hátíðir og hvíldardaga og útskúfaði í sinni áköfu reiði konungi og prestum.

Drottinn hefir hafnað altari sínu, smáð helgidóm sinn, ofurselt í óvina hendur hallarmúra hennar. Þeir létu óp glymja í musteri Drottins eins og á hátíðardegi.

Drottinn hafði ásett sér að eyða múr dótturinnar Síon. Hann útþandi mælivaðinn, aftraði eigi hendi sinni að eyða og steypti sorg yfir varnarvirki og múr, þau harma bæði saman.

Hlið hennar eru sokkin í jörðu, hann ónýtti og braut slagbranda hennar. Konungur hennar og höfðingjar eru meðal heiðingjanna, lögmálslausir, spámenn hennar fá ekki heldur framar vitranir frá Drottni.

10 Þeir sitja þegjandi á jörðinni, öldungar dótturinnar Síon, þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín, gyrst hærusekk, höfuð létu hníga að jörðu Jerúsalem-meyjar.

11 Augu mín daprast af gráti, iður mín ólga, hjarta mitt ætlar að springa yfir tortíming dóttur þjóðar minnar, er börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota á strætum borgarinnar.

12 Þau segja við mæður sínar: "Hvar er korn og vín?" er þau hníga magnþrota eins og dauðsærðir menn á strætum borgarinnar, er þau gefa upp öndina í faðmi mæðra sinna.

13 Hvað á ég að taka til dæmis um þig, við hvað líkja þér, þú dóttirin Jerúsalem? Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig, þú mærin, dóttirin Síon? Já, sár þitt er stórt eins og hafið, hver gæti læknað þig?

14 Spámenn þínir birtu þér tálsýnir og hégóma, en drógu ekki skýluna af misgjörð þinni til þess að snúa við högum þínum, heldur birtu þér spár til táls og ginninga.

15 Yfir þér skelltu lófum saman allir þeir er um veginn fóru, blístruðu og skóku höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem: "Er þetta borgin, hin alfagra, unun allrar jarðarinnar?"

16 Yfir þér glenntu upp ginið allir óvinir þínir, blístruðu og nístu tönnum, sögðu: "Vér höfum gjöreytt hana! Já, eftir þessum degi höfum vér beðið, vér höfum lifað hann, vér höfum séð hann!"

17 Drottinn hefir framkvæmt það, er hann hafði ákveðið, efnt orð sín, þau er hann hefir boðið frá því forðum daga, hefir rifið niður vægðarlaust og látið óvinina fagna yfir þér, hann hóf horn fjenda þinna.

18 Hrópa þú hátt til Drottins, þú mærin, dóttirin Síon. Lát tárin renna eins og læk dag og nótt, unn þér engrar hvíldar, auga þitt láti ekki hlé á verða.

19 Á fætur! Kveina um nætur, í byrjun hverrar næturvöku, úthell hjarta þínu eins og vatni frammi fyrir augliti Drottins, fórnaðu höndum til hans fyrir lífi barna þinna, sem hníga magnþrota af hungri á öllum strætamótum.

20 Sjá, Drottinn, og lít á, hverjum þú hefir gjört slíkt! Eiga konur að eta lífsafkvæmi sín, börnin sem þær bera á örmum? Eiga myrtir að verða í helgidómi Drottins prestar og spámenn?

21 Vegnir liggja á strætunum sveinar og öldungar. Meyjar mínar og æskumenn féllu fyrir sverði, þú myrtir á degi reiði þinnar, slátraðir vægðarlaust.

22 Þú stefnir eins og á hátíðardegi skelfingum að mér úr öllum áttum. Á reiðidegi Drottins var enginn, er af kæmist og eftir yrði. Þá sem ég hefi fóstrað og uppalið, þá hefir óvinur minn afmáð.

10 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð.

Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir.

En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert.

Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.

Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.

Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.

Þá sagði ég: "Sjá, ég er kominn _ í bókinni er það ritað um mig _ ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!"

Fyrst segir hann: "Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim." En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu.

Síðan segir hann: "Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn." Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara.

10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.

11 Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir.

12 En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs

13 og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.

14 Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða.

15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann:

16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau.

17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.

18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

Read full chapter