Add parallel Print Page Options

12 En snúið yður nú til mín _ segir Drottinn _ af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini.

13 Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til Drottins Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur og iðrast hins illa.

14 Hver veit nema hann iðrist aftur og láti blessun eftir sig: matfórn og dreypifórn handa Drottni, Guði yðar!

15 Þeytið lúðurinn í Síon, stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu.

16 Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum.

17 Milli forsals og altaris skulu prestarnir, þjónar Drottins, gráta og segja: "Þyrm þjóð þinni, Drottinn, og lát eigi arfleifð þína verða að spotti, svo að heiðingjarnir drottni yfir þeim. Hví skulu menn segja meðal þjóðanna: ,Hvar er Guð þeirra?"`

18 Þá varð Drottinn fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum.

19 Drottinn tók til máls og sagði við lýð sinn: Sjá, ég sendi yður korn, vínberjalög og olíu, svo að yður skal nægja til saðnings. Og ég vil eigi láta yður verða framar að spotti meðal heiðingjanna.

Read full chapter