Add parallel Print Page Options

20 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:

Fyrir því veita hugsanir mínar mér andsvör og af því að það sýður í mér:

Ég verð að hlusta á háðulegar ávítur, en andi minn gefur mér skilning að svara.

Veist þú, að svo hefir það verið frá eilífð, frá því er menn voru settir á jörðina,

að fögnuður óguðlegra er skammær og að gleði hins guðlausa varir örskotsstund?

Þó að sjálfbirgingskapur hans nemi við himin og höfuð hans nái upp í skýin,

þá verður hann þó eilíflega að engu eins og hans eigin saur, þeir, sem sáu hann, segja: Hvar er hann?

Hann líður burt eins og draumur, svo að hann finnst ekki, og hverfur eins og nætursýn.

Augað, sem á hann horfði, sér hann eigi aftur, og bústaður hans lítur hann aldrei framar.

10 Börn hans sníkja á snauða menn, og hendur þeirra skila aftur eigum hans.

11 Þótt bein hans séu full af æskuþrótti, leggjast þau samt með honum í moldu.

12 Þótt hið illa sé honum sætt í munni, þótt hann feli það undir tungu sinni,

13 þótt hann treini sér það og vilji ekki sleppa því og haldi því eftir í miðjum gómnum,

14 þá breytist þó fæðan í innýflum hans, _ í nöðrugall í kviði honum.

15 Auð gleypti hann _ hann verður að æla honum aftur, Guð keyrir hann úr kviði hans.

16 Nöðrueitur saug hann, tunga eiturormsins deyðir hann.

17 Hann má ekki gleðjast yfir lækjum, yfir rennandi ám hunangs og rjóma.

18 Hann lætur af hendi aflaféð og gleypir það eigi, auðurinn sem hann græddi, veitir honum eigi eftirvænta gleði.

19 Því að hann kúgaði snauða og lét þá eftir hjálparlausa, sölsaði undir sig hús, en byggði ekki.

20 Því að hann þekkti enga ró í maga sínum, þó fær hann eigi forðað því, sem honum er dýrmætast.

21 Ekkert komst undan græðgi hans, fyrir því er velsæld hans eigi varanleg.

22 Þótt hann hafi allsnægtir, kemst hann í nauðir, allt magn mæðunnar kemur yfir hann.

23 Þá verður það: Til þess að fylla kvið hans sendir Guð í hann sína brennandi reiði og lætur mat sínum rigna yfir hann.

24 Flýi hann fyrir járnvopnunum, þá borar eirboginn hann í gegn.

25 Hann dregur örina út, þá kemur hún út um bakið, og hinn blikandi oddur kemur út úr galli hans _ skelfing grípur hann.

26 Allur ófarnaður er geymdur auðæfum hans, eldur, sem enginn blæs að, eyðir honum, hann etur það, sem eftir er í tjaldi hans.

27 Himinninn afhjúpar misgjörð hans, og jörðin gjörir uppreisn í móti honum.

28 Gróði húss hans fer í útlegð, rennur burt í allar áttir á degi reiðinnar.

29 Þetta er óguðlegs manns hlutskipti frá Guði og arfleifð sú, sem honum er úthlutuð af hinum Almáttka.

21 Þá svaraði Job og sagði:

Hlustið gaumgæfilega á mál mitt, og látið það vera huggun af yðar hendi.

Unnið mér þess, að ég tali, og þegar ég hefi talað út, þá mátt þú hæða.

Er ég þá að kvarta yfir mönnum? eða hví skyldi ég ekki vera óþolinmóður?

Lítið til mín og undrist og leggið hönd á munn!

Já, þegar ég hugsa um það, skelfist ég, og hryllingur fer um mig allan.

Hvers vegna lifa hinir óguðlegu, verða gamlir, já, magnast að krafti?

Niðjar þeirra dafna fyrir augliti þeirra hjá þeim og afsprengi þeirra fyrir augum þeirra.

Hús þeirra eru óhult og óttalaus, og hirtingarvöndur Guðs kemur ekki niður á þeim.

10 Boli þeirra kelfir og kemur að gagni, kýr þeirra ber og lætur ekki kálfi.

11 Þeir hleypa út börnum sínum eins og lambahjörð, og smásveinar þeirra hoppa og leika sér.

12 Þeir syngja hátt undir með bumbum og gígjum og gleðjast við hljóm hjarðpípunnar.

13 Þeir eyða dögum sínum í velgengni og fara til Heljar í friði,

14 og þó sögðu þeir við Guð: "Vík frá oss _ að þekkja þína vegu girnumst vér eigi.

15 Hvað er hinn Almáttki, að vér skyldum dýrka hann, og hvað skyldi það stoða oss að leita hans í bæn?"

16 Sjá, gæfa þeirra er ekki á þeirra valdi, _ ráðlag óguðlegra er fjarri mér.

17 Hversu oft slokknar þá á lampa hinna óguðlegu, og hversu oft kemur ógæfa þeirra yfir þá? Hversu oft deilir Guð þeim hlutskiptum í reiði sinni?

18 Hversu oft verða þeir sem strá fyrir vindi og sem sáðir, er stormurinn feykir burt?

19 "Guð geymir börnum hans óhamingju hans." Endurgjaldi hann honum sjálfum, svo að hann fái að kenna á því!

20 Sjái augu sjálfs hans glötun hans, og drekki hann sjálfur af reiði hins Almáttka!

21 Því að hvað hirðir hann um hús sitt eftir dauðann, þegar tala mánaða hans er fullnuð?

22 Ætla menn að kenna Guði visku eða dæma hinn hæsta?

23 Einn deyr í mestu velgengni, fullkomlega áhyggjulaus og ánægður,

24 trog hans eru full af mjólk, og mergurinn í beinum hans er safamikill.

25 Og annar deyr með beiskju í huga og hefir aldrei notið hamingjunnar.

26 Þeir hvíla báðir í duftinu, og maðkarnir hylja þá.

27 Sjá, ég þekki hugsanir yðar og fyrirætlanir, að beita mig ofbeldi.

28 Þegar þér segið: "Hvar er hús harðstjórans og hvar er tjaldið, sem hinir óguðlegu bjuggu í?"

29 hafið þér þá ekki spurt vegfarendur, _ og sönnunum þeirra munuð þér ekki hafna _

30 að á degi glötunarinnar er hinum vonda þyrmt, á reiðinnar degi er þeim skotið undan.

31 Hver setur honum breytni hans fyrir sjónir? Og þegar hann gjörir eitthvað, hver endurgeldur honum?

32 Og til grafar er hann borinn og vakað er yfir legstaðnum.

33 Moldarhnausar dalsins liggja mjúklega ofan á honum, og eftir honum flykkjast allir menn, eins og óteljandi eru á undan honum farnir.

34 Og hvernig megið þér þá hugga mig með hégóma, og andsvör yðar _ sviksemin ein er eftir!