Add parallel Print Page Options

37 Sedekía Jósíason varð konungur í stað Konja Jójakímssonar, er Nebúkadresar Babelkonungur hafði gjört að konungi í Júda.

En hvorki hann, né þjónar hans, né landslýðurinn hlýddi orðum Drottins, þeim er hann talaði fyrir munn Jeremía spámanns.

Og Sedekía konungur sendi Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með svolátandi orðsending: "Bið þú fyrir oss til Drottins, Guðs vors!"

En Jeremía gekk þá út og inn meðal lýðsins og þeir höfðu enn ekki sett hann í dýflissuna.

Her Faraós var og lagður af stað frá Egyptalandi, og er Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, spurðu það, héldu þeir burt frá Jerúsalem.

Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við Júdakonung, sem sendi yður til mín, til þess að spyrja mig: Her Faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til síns lands, til Egyptalands,

og Kaldear munu og aftur snúa og herja á þessa borg, vinna hana og brenna hana í eldi.

Svo segir Drottinn: Svíkið ekki sjálfa yður með því að segja: "Kaldear munu vissulega fara burt frá oss!" því að þeir fara ekki burt.

10 Því að þótt þér fellduð allan her Kaldea, er á yður herjar, og ekki væru aðrir orðnir eftir af þeim en sverði lagðir menn, þá mundu þeir rísa upp, hver og einn í sínu tjaldi, og brenna þessa borg í eldi!

11 En er her Kaldea fór burt frá Jerúsalem undan her Faraós,

12 þá fór Jeremía frá Jerúsalem og hélt til Benjamínslands, til þess að taka þar á móti erfðahlut, mitt á meðal lýðsins.

13 En er hann kom í Benjamínshlið, þá var þar fyrir varðmaður, að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: "Þú ætlar að hlaupast burt til Kaldea!"

14 En Jeremía sagði: "Það er lygi! Ég ætla ekki að hlaupast burt til Kaldea!" En Jería hlustaði ekki á Jeremía og tók hann höndum og fór með hann til höfðingjanna.

15 Og höfðingjarnir reiddust Jeremía og börðu hann og settu hann í fangelsi í húsi Jónatans kanslara, því að það höfðu þeir gjört að dýflissu.

16 Þannig komst Jeremía í prísundina og í hvelfinguna, og þar sat Jeremía alllangan tíma.

17 En Sedekía konungur sendi og lét sækja hann, og konungur spurði hann á laun í höll sinni og mælti: "Hefir nokkurt orð komið frá Drottni?" "Svo er víst!" mælti Jeremía. "Þú munt seldur verða á vald Babelkonungs!"

18 Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: "Hvað hefi ég brotið gegn þér og gegn þjónum þínum og gegn þessum lýð, að þér hafið sett mig í dýflissu?

19 Og hvar eru nú spámenn yðar, þeir er spáðu yður og sögðu: ,Eigi mun Babelkonungur fara í móti yður og í móti þessu landi`?

20 Og heyr nú, minn herra konungur! Virst að heyra auðmjúka bæn mína! Lát eigi flytja mig aftur í hús Jónatans kanslara, svo að ég deyi þar ekki!"

21 Síðan var Jeremía settur í varðhald í varðgarðinum að boði Sedekía konungs og honum gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni. Og þannig sat Jeremía í varðgarðinum.

38 Þá fréttu þeir Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason þau orð, er Jeremía talaði til alls lýðsins:

"Svo segir Drottinn: Þeir, sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir, sem fara út til Kaldea, munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi og lifa.

Svo segir Drottinn: Þessi borg mun vissulega verða gefin her Babelkonungs á vald og hann mun vinna hana!"

Þá sögðu höfðingjarnir við konung: "Lát drepa mann þennan! Því að hann gjörir hermennina, sem eftir eru í þessari borg, huglausa og allan lýðinn með því að tala slík orð til þeirra, því að þessi maður leitar ekki þess, sem þessum lýð er til heilla, heldur þess, sem honum er til ógæfu."

En Sedekía konungur svaraði: "Sjá, hann er á yðar valdi, því að konungurinn megnar ekkert á móti yður."

Þá tóku þeir Jeremía og köstuðu honum í gryfju Malkía konungssonar, sem var í varðgarðinum, og létu þeir Jeremía síga niður í böndum, en í gryfjunni var ekkert vatn, heldur leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.

En er Ebed-Melek, blálenskur geldingur, sem var í konungshöllinni, frétti, að þeir hefðu varpað Jeremía í gryfjuna, _ en konungur sat þá í Benjamínshliði _,

þá gekk Ebed-Melek út úr konungshöllinni og mælti til konungs á þessa leið:

"Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri, því að ekkert brauð er framar til í borginni."

10 Þá skipaði konungur Ebed-Melek Blálendingi á þessa leið: "Tak héðan með þér þrjá menn og drag Jeremía spámann upp úr gryfjunni, áður en hann deyr."

11 Og Ebed-Melek tók mennina með sér og fór inn í konungshöllina, inn undir féhirsluna, og tók þar sundurrifna fataræfla og klæðaslitur og lét síga í böndum niður í gryfjuna til Jeremía.

12 Síðan mælti Ebed-Melek Blálendingur til Jeremía: "Legg rifnu og slitnu fataræflana undir hendur þér undir böndin!" Og Jeremía gjörði svo.

13 Og þeir drógu Jeremía upp með böndunum og hófu hann upp úr gryfjunni. Og sat nú Jeremía í varðgarðinum.

14 Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: "Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!"

15 En Jeremía mælti til Sedekía: "Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!"

16 Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt."

17 Þá sagði Jeremía við Sedekía: "Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt.

18 En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim."

19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: "Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!"

20 En Jeremía sagði: "Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda.

21 En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta:

22 Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: ,Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!`

23 Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi."

24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: "Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani.

25 En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: ,Seg oss, hvað þú talaðir við konung, _ leyn oss engu, ella drepum vér þig _ og hvað konungur talaði við þig,`

26 þá seg við þá: ,Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar."`

27 Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært.

28 Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.

39 Á níunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, í tíunda mánuðinum, kom Nebúkadresar konungur í Babýlon og allur her hans til Jerúsalem, og settust um hana.

En á ellefta ríkisári Sedekía, í fjórða mánuðinum, níunda dag mánaðarins, var brotið skarð inn í borgina.

En er Jerúsalem var unnin, komu allir hershöfðingjar Babelkonungs og settust að í Miðhliðinu, þeir Nergalsareser, höfðingi í Símmagir, Nebúsarsekím hirðstjóri og margir aðrir höfðingjar Babelkonungs.

En er Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þetta, flýðu þeir og fóru um nóttina út úr borginni, veginn sem liggur út að konungsgarðinum, gegnum hliðið milli beggja múranna og héldu leiðina til Jórdandalsins.

En her Kaldea veitti þeim eftirför og náði Sedekía á Jeríkó-völlum. Tóku þeir hann og fluttu hann til Ribla í Hamathéraði til Nebúkadresars Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.

Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía í Ribla fyrir augum hans. Sömuleiðis lét Babelkonungur drepa alla tignarmenn í Júda.

En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.

Kaldear brenndu konungshöllina og hús lýðsins og rifu niður múra Jerúsalem.

En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með honum, og leifar lýðsins, þá er eftir voru, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon,

10 en af almúgamönnum, sem ekkert áttu, lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir í Júda og gaf þeim þann dag víngarða og akra.

11 En um Jeremía gaf Nebúkadresar Babelkonungur út svolátandi skipun fyrir milligöngu Nebúsaradans lífvarðarforingja:

12 "Tak hann og annast hann og gjör honum ekkert illt, heldur gjör við hann svo sem hann mælist til við þig!"

13 Þá sendu þeir Nebúsaradan lífvarðarforingi og Nebúsasban hirðstjóri og Nergalsareser hershöfðingi og allir yfirmenn Babelkonungs

14 menn og létu sækja Jeremía í varðgarðinn og seldu hann í hendur Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, að hann færi með hann heim. Og þannig varð hann kyrr meðal lýðsins.

15 Meðan Jeremía sat innilokaður í varðgarðinum, hafði orð Drottins komið til hans:

16 Far og seg við Ebed-Melek Blálending: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég læt orð mín um ógæfu, en eigi um hamingju, koma fram á þessari borg, og þau skulu rætast fyrir augum þínum á þeim degi.

17 En ég skal frelsa þig á þeim degi _ segir Drottinn _ og þú skalt ekki seldur verða á vald mönnum þeim, er þú hræðist,

18 heldur skal ég láta þig komast undan og þú skalt ekki falla fyrir sverði, og þú skalt hljóta líf þitt að herfangi, af því að þú hefir treyst mér _ segir Drottinn.