Jesaja 11:1-9
Icelandic Bible
11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.
2 Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.
3 Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.
4 Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.
5 Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.
6 Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.
7 Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.
8 Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.
9 Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.
Read full chapterby Icelandic Bible Society