Add parallel Print Page Options

10 Heyrið orð Drottins, dómarar í Sódómu! Hlusta þú á kenning Guðs vors, Gómorru-lýður!

11 Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir? _ segir Drottinn. Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki.

12 Þegar þér komið til þess að líta auglit mitt, hver hefir þá beðið yður að traðka forgarða mína?

13 Berið eigi lengur fram fánýtar matfórnir; þær eru mér andstyggilegur fórnarreykur! Tunglkomur, hvíldardagar, hátíðastefnur, _ ég fæ eigi þolað að saman fari ranglæti og hátíðaþröng.

14 Sál mín hatar tunglkomur yðar og hátíðir, þær eru orðnar mér byrði, ég er þreyttur orðinn að bera þær.

15 Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.

16 Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt,

17 lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.

Read full chapter