Add parallel Print Page Options

50 Svo segir Drottinn: Hvar er sú skilnaðarskrá móður yðar, er ég á að hafa rekið hana burt með? Eða hverjum af lánardrottnum mínum hefi ég selt yður? Sjá, sökum misgjörða yðar hafið þér seldir verið og vegna afbrota yðar hefir móðir yðar verið burt rekin.

Hvers vegna var enginn fyrir, þegar ég kom, hví gegndi enginn, þegar ég kallaði? Er hönd mín þá svo stutt orðin, að hún geti eigi frelsað, eða vantar mig mátt til að bjarga? Sjá, með hótun minni þurrka ég upp hafið, gjöri fljótin að eyðimörk, svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta.

Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning.

Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.

Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.

Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.

Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.

Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín!

Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.

10 Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.

11 Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.

51 Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir!

Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.

Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.

Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar.

Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.

Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.

Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra,

því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.

Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?

10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?

11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.

12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið,

13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?

14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _

15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.

16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: "Þú ert minn lýður!"

17 Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar Drottins, er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn!

18 Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar.

19 Þetta tvennt henti þig _ hver aumkar þig? _ eyðing og umturnun, hungur og sverð _ hver huggar þig?

20 Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði Drottins, af hirtingarorðum Guðs þíns.

21 Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni:

22 Svo segir Drottinn þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns: Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja.

23 Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: "Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!" Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.

52 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.

Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon!

Svo segir Drottinn: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.

Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust.

Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra _ segir Drottinn _ þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba _ segir Drottinn _ og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn.

Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: "Sjá, hér er ég!"

Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: "Guð þinn er setstur að völdum!"

Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.

Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.

10 Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.

11 Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins!

12 Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.

13 Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.

14 Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum _ svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum _

15 eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.