Add parallel Print Page Options

49 Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: "Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum."

Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs, hlýðið á Ísrael föður yðar!

Rúben, þú ert frumgetningur minn, kraftur minn og frumgróði styrkleika míns, fremstur að virðingum og fremstur að völdum.

En þar eð þú ólgar sem vatnið, skalt þú eigi fremstur vera, því að þú gekkst í hvílu föður þíns. Þá flekkaðir þú hana, gekkst í hjónasæng mína!

Símeon og Leví eru bræður, tól ofbeldis eru sverð þeirra.

Sál mín komi ekki á ráðstefnu þeirra, sæmd mín hafi eigi félagsskap við söfnuð þeirra, því að í reiði sinni drápu þeir menn, og í ofsa sínum skáru þeir á hásinar nautanna.

Bölvuð sé reiði þeirra, því að hún var römm, og bræði þeirra, því að hún var grimm. Ég vil dreifa þeim í Jakob og tvístra þeim í Ísrael.

Júda, þig munu bræður þínir vegsama. Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna, synir föður þíns skulu lúta þér.

Júda er ljónshvolpur, frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn. Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur?

10 Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.

11 Hann bindur við víntré ösnufola sinn, við gæðavínvið son ösnu sinnar, hann þvær klæði sín í víni og möttul sinn í vínberjablóði.

12 Vínmóða er í augum hans og tennur hans hvítar af mjólk.

13 Sebúlon mun búa við sjávarströndina, við ströndina þar sem skipin liggja, og land hans vita að Sídon.

14 Íssakar er beinasterkur asni, sem liggur á milli fjárgirðinganna.

15 Og hann sá, að hvíldin var góð og að landið var unaðslegt, og hann beygði herðar sínar undir byrðar og varð vinnuskyldur þræll.

16 Dan mun rétta hluta þjóðar sinnar sem hver önnur Ísraels ættkvísl.

17 Dan verður höggormur á veginum og naðra í götunni, sem hælbítur hestinn, svo að reiðmaðurinn fellur aftur á bak.

18 Þinni hjálp treysti ég, Drottinn!

19 Gað _ ræningjaflokkur fer að honum, en hann rekur þá á flótta.

20 Asser _ feit er fæða hans, og hann veitir konungakrásir.

21 Naftalí er rásandi hind, frá honum koma fegurðarorð.

22 Jósef er ungur aldinviður, ungur aldinviður við uppsprettulind, greinar hans teygja sig upp yfir múrinn.

23 Bogmenn veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann,

24 en bogi hans reyndist stinnur, og handleggir hans voru fimir. Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels,

25 frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins, er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs.

26 Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll, hærra en unaður hinna eilífu hæða. Hún komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna.

27 Benjamín er úlfur, sem sundurrífur. Á morgnana etur hann bráð, og á kveldin skiptir hann herfangi.

28 Allir þessir eru tólf kynþættir Ísraels, og þetta er það, sem faðir þeirra talaði við þá. Jakob blessaði þá, sérhvern blessaði hann með þeirri blessun, er honum bar.

29 Og hann bauð þeim og mælti við þá: "Ég safnast nú til míns fólks. Jarðið mig hjá feðrum mínum, í hellinum, sem er í landi Efrons Hetíta,

30 í hellinum, sem er í Makpelalandi og liggur gegnt Mamre í Kanaanlandi og Abraham keypti með akrinum af Efron Hetíta fyrir grafreit.

31 Þar hafa þeir jarðað Abraham og Söru konu hans, þar hafa þeir jarðað Ísak og Rebekku konu hans, og þar hefi ég jarðað Leu.

32 Akurinn og hellirinn, sem á honum er, hafði keyptur verið af Hetítum."

33 Og er Jakob hafði lokið þessum fyrirmælum við sonu sína, lagði hann fætur sína upp í hvíluna og andaðist og safnaðist til síns fólks.

50 Jósef laut þá ofan að andliti föður síns og grét yfir honum og kyssti hann.

Og Jósef bauð þjónum sínum, læknunum, að smyrja föður sinn. Og læknarnir smurðu Ísrael,

en til þess gengu fjörutíu dagar, því að svo lengi stendur á smurningunni. Og Egyptar syrgðu hann sjötíu daga.

Er sorgardagarnir voru liðnir, kom Jósef að máli við hirðmenn Faraós og mælti: "Hafi ég fundið náð í augum yðar, þá berið Faraó þessi orð mín:

Faðir minn tók eið af mér og sagði: ,Sjá, nú mun ég deyja. Í gröf minni, sem ég gróf handa mér í Kanaanlandi, skaltu jarða mig.` Leyf mér því að fara og jarða föður minn. Að því búnu skal ég koma aftur."

Og Faraó sagði: "Far þú og jarða föður þinn, eins og hann lét þig vinna eið að."

Og Jósef fór að jarða föður sinn, og með honum fóru allir þjónar Faraós, öldungar hirðarinnar og allir öldungar Egyptalands

og allir heimilismenn Jósefs, svo og bræður hans og heimilismenn föður hans. Aðeins létu þeir börn sín, sauði sína og nautgripi eftir verða í Gósenlandi.

Í för með honum voru vagnar og riddarar, og var það stórmikið föruneyti.

10 En er þeir komu til Góren-haatad, sem er hinumegin við Jórdan, þá hófu þeir þar harmakvein mikið og hátíðlegt mjög, og hann hélt sorgarhátíð eftir föður sinn í sjö daga.

11 Og er landsbúar, Kanaanítar, sáu sorgarhátíðina í Góren-haatad, sögðu þeir: "Þar halda Egyptar mikla sorgarhátíð." Fyrir því var sá staður nefndur Abel Mísraím. Liggur hann hinumegin við Jórdan.

12 Synir hans gjörðu svo við hann sem hann hafði boðið þeim.

13 Og synir hans fluttu hann til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum fyrir grafreit af Efron Hetíta, gegnt Mamre.

14 Og Jósef fór aftur til Egyptalands, er hann hafði jarðað föður sinn, hann og bræður hans og allir, sem með honum höfðu farið að jarða föður hans.

15 Er bræður Jósefs sáu að faðir þeirra var dáinn, hugsuðu þeir: "En ef Jósef nú fjandskapaðist við oss og launaði oss allt hið illa, sem vér höfum gjört honum!"

16 Og þeir gjörðu Jósef svolátandi orðsending: "Faðir þinn mælti svo fyrir, áður en hann dó:

17 ,Þannig skuluð þér mæla við Jósef: Æ, fyrirgef bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, að þeir gjörðu þér illt.` Fyrirgef því misgjörðina þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði." Og Jósef grét, er þeir mæltu svo til hans.

18 Því næst komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: "Sjá, vér erum þrælar þínir."

19 En Jósef sagði við þá: "Óttist ekki, því að er ég í Guðs stað?

20 Þér ætluðuð að gjöra mér illt, en Guð sneri því til góðs, til að gjöra það, sem nú er fram komið, að halda lífinu í mörgu fólki.

21 Verið því óhræddir, ég skal annast yður og börn yðar." Síðan hughreysti hann þá og talaði við þá blíðlega.

22 Jósef bjó í Egyptalandi, hann og ættlið föður hans. Og Jósef varð hundrað og tíu ára gamall.

23 Og Jósef sá niðja Efraíms í þriðja lið. Og synir Makírs, sonar Manasse, fæddust á kné Jósefs.

24 Og Jósef sagði við bræður sína: "Nú mun ég deyja. En Guð mun vissulega vitja yðar og flytja yður úr þessu landi til þess lands, sem hann hefir svarið Abraham, Ísak og Jakob."

25 Og Jósef tók eið af Ísraels sonum og mælti: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan."

31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.

32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."

33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.

35 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.

36 Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: "Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum."

37 Hann mælti: "Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn,

38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.

39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.

40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar.

41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja,

42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

43 Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.

44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.

45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.

46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.

47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.

48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.

49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum

50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.

52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."

53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.

54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: "Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?

55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?

56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?"

57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum."

58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.

Read full chapter