Add parallel Print Page Options

20 Nú flutti Abraham sig þaðan til Suðurlandsins og settist að milli Kades og Súr og dvaldist um hríð í Gerar.

Og Abraham sagði um Söru konu sína: "Hún er systir mín." Þá sendi Abímelek konungur í Gerar menn og lét sækja Söru.

En Guð kom til Abímeleks í draumi um nóttina og sagði við hann: "Sjá, þú skalt deyja vegna konu þeirrar, sem þú hefir tekið, því að hún er gift kona."

En Abímelek hafði ekki komið nærri henni. Og hann sagði: "Drottinn, munt þú einnig vilja deyða saklaust fólk?

Hefir hann ekki sagt við mig: ,Hún er systir mín`? og hún sjálf hefir einnig sagt: ,Hann er bróðir minn?` Í einlægni hjarta míns og með hreinum höndum hefi ég gjört þetta."

Og Guð sagði við hann í draumnum: "Víst veit ég, að þú gjörðir þetta í einlægni hjarta þíns, og ég hefi einnig varðveitt þig frá að syndga gegn mér. Fyrir því leyfði ég þér ekki að snerta hana.

Fá því nú manninum konu hans aftur, því að hann er spámaður, og mun hann biðja fyrir þér, að þú megir lífi halda. En ef þú skilar henni ekki aftur, þá skalt þú vita, að þú munt vissulega deyja, þú og allir, sem þér tilheyra."

Abímelek reis árla um morguninn og kallaði til sín alla þjóna sína og greindi þeim frá öllu þessu. Og mennirnir urðu mjög óttaslegnir.

Og Abímelek lét kalla Abraham til sín og sagði við hann: "Hvað hefir þú gjört oss? Og hvað hefi ég misgjört við þig, að þú skyldir leiða svo stóra synd yfir mig og ríki mitt? Verk, sem enginn skyldi fremja, hefir þú framið gegn mér."

10 Og Abímelek sagði við Abraham: "Hvað gekk þér til að gjöra þetta?"

11 Þá mælti Abraham: "Ég hugsaði: ,Vart mun nokkur guðsótti vera á þessum stað, og þeir munu drepa mig vegna konu minnar.`

12 Og þar að auki er hún sannlega systir mín, samfeðra, þótt eigi séum við sammæðra, og hún varð kona mín.

13 Og þegar Guð lét mig fara úr húsi föður míns, sagði ég við hana: ,Þessa góðsemi verður þú að sýna mér: Hvar sem við komum, þá segðu um mig: Hann er bróðir minn."`

14 Þá tók Abímelek sauði, naut, þræla og ambáttir og gaf Abraham og fékk honum aftur Söru konu hans.

15 Og Abímelek sagði: "Sjá, land mitt stendur þér til boða. Bú þú þar sem þér best líkar."

16 Og við Söru sagði hann: "Sjá, ég gef bróður þínum þúsund sikla silfurs. Sjá, það sé þér uppreist í augum allra þeirra, sem með þér eru, og ert þú þannig réttlætt fyrir öllum."

17 Og Abraham bað til Guðs fyrir honum, og Guð læknaði Abímelek og konu hans og ambáttir, svo að þær ólu börn.

18 Því að Drottinn hafði lokað sérhverjum móðurkviði í húsi Abímeleks sakir Söru, konu Abrahams.

21 Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt.

Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum.

Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak.

Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum.

En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum.

Sara sagði: "Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér."

Og hún mælti: "Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans."

Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti.

En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar.

10 Þá sagði hún við Abraham: "Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak."

11 En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns.

12 Þá sagði Guð við Abraham: "Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak.

13 En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi."

14 Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba.

15 En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann.

16 Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: "Ég get ekki horft á að barnið deyi." Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum.

17 En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: "Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur.

18 Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð."

19 Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka.

20 Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður.

21 Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi.

22 Um sömu mundir bar svo til, að Abímelek og hershöfðingi hans Píkól mæltu þannig við Abraham: "Guð er með þér í öllu, sem þú gjörir.

23 Vinn mér nú eið að því hér við Guð, að þú skulir eigi breyta sviksamlega, hvorki við mig né afkomendur mína. Þú skalt auðsýna mér og landinu, sem þú dvelst í sem útlendingur, hina sömu góðsemi og ég hefi auðsýnt þér."

24 Og Abraham mælti: "Ég skal vinna þér eið að því."

25 En Abraham átaldi Abímelek fyrir vatnsbrunninn, sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki.

26 Þá sagði Abímelek: "Ekki veit ég, hver það hefir gjört. Hvorki hefir þú sagt mér það né hefi ég heldur heyrt það fyrr en í dag."

27 Þá tók Abraham sauði og naut og gaf Abímelek, og þeir gjörðu sáttmála sín í milli.

28 Og Abraham tók frá sjö gimbrar af hjörðinni.

29 Þá mælti Abímelek til Abrahams: "Hvað skulu þessar sjö gimbrar, sem þú hefir tekið frá?"

30 Hann svaraði: "Við þessum sjö gimbrum skalt þú taka af minni hendi, til vitnis um að ég hefi grafið þennan brunn."

31 Þess vegna heitir sá staður Beerseba, af því að þeir sóru þar báðir.

32 Þannig gjörðu þeir sáttmála í Beerseba. Síðan tók Abímelek sig upp og Píkól hershöfðingi hans og sneru aftur til Filistalands.

33 Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og ákallaði þar nafn Drottins, Hins Eilífa Guðs.

34 Og Abraham dvaldist lengi í Filistalandi.

22 Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: "Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég."

Hann sagði: "Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til."

Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum.

Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar.

Þá sagði Abraham við sveina sína: "Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur."

Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman.

Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: "Faðir minn!" Hann svaraði: "Hér er ég, sonur minn!" Hann mælti: "Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?"

Og Abraham sagði: "Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn." Og svo gengu þeir báðir saman.

En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn.

10 Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.

11 Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: "Abraham! Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég."

12 Hann sagði: "Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn."

13 Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns.

14 Og Abraham kallaði þennan stað "Drottinn sér," svo að það er máltæki allt til þessa dags: "Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist."

15 Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams

16 og mælti: "Ég sver við sjálfan mig," segir Drottinn, "að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn,

17 þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna.

18 Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu."

19 Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba.

20 Eftir þetta bar svo við, að Abraham var sagt: "Sjá, Milka hefir og fætt bróður þínum Nahor sonu:

21 Ús, frumgetning hans, og Bús, bróður hans, og Kemúel, ættföður Aramea,

22 og Kesed, Kasó, Píldas, Jídlaf og Betúel." En Betúel gat Rebekku.

23 Þessa átta fæddi Milka Nahor, bróður Abrahams.

24 Og hann átti hjákonu, sem hét Reúma. Hún ól honum og sonu, þá Teba, Gaham, Tahas og Maaka.