Add parallel Print Page Options

22 Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: "Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda."

Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví.

Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði.

En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum.

En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði.

Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana.

En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: "Þetta er eitt af börnum Hebrea."

Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: "Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?"

Og dóttir Faraós svaraði henni: "Já, far þú." En mærin fór og sótti móður sveinsins.

Og dóttir Faraós sagði við hana: "Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir." Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti.

10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: "Ég hefi dregið hann upp úr vatninu."