Add parallel Print Page Options

27 Þú skalt gjöra altarið af akasíuviði, fimm álna langt og fimm álna breitt _ ferhyrnt skal altarið vera _ og þriggja álna hátt.

Og þú skalt gjöra hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn skulu vera áföst við það _, og þú skalt eirleggja það.

Þú skalt gjöra ker undir öskuna, eldspaða þá, fórnarskálir, soðkróka og eldpönnur, sem altarinu fylgja. Öll áhöld þess skalt þú gjöra af eiri.

Þú skalt gjöra um altarið eirgrind, eins og riðið net, og setja fjóra eirhringa á netið, á fjögur horn altarisins.

Grindina skalt þú festa fyrir neðan umgjörð altarisins undir niðri, svo að netið taki upp á mitt altarið.

Og þú skalt gjöra stengur til altarisins, stengur af akasíuviði, og eirleggja þær.

Skal smeygja stöngunum í hringana, og skulu stengurnar vera á báðum hliðum altarisins, þegar það er borið.

Þú skalt gjöra altarið af borðum, holt að innan. Þeir skulu gjöra það eins og þér var sýnt uppi á fjallinu.

Þannig skalt þú gjöra forgarð tjaldbúðarinnar: Á suðurhliðinni skulu tjöld vera fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng á þá hliðina,

10 og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar stólpanna og hringrandir þeirra skulu vera af silfri.

11 Sömuleiðis skulu að norðanverðu langsetis vera hundrað álna löng tjöld og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim skulu vera af silfri.

12 En á þverhlið forgarðsins að vestanverðu skulu vera fimmtíu álna löng tjöld og tíu stólpar með tíu undirstöðum.

13 Þverhlið forgarðsins að austanverðu, mót uppkomu sólar, skal vera fimmtíu álnir,

14 og skulu vera fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum,

15 og hins vegar sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum.

16 Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum.

17 Allir stólpar umhverfis forgarðinn skulu vera með hringröndum af silfri og silfurnöglum og undirstöðurnar af eiri.

18 Lengd forgarðsins skal vera hundrað álnir og breiddin fimmtíu álnir og hæðin fimm álnir, úr tvinnaðri baðmull og undirstöðurnar af eiri.

19 Öll áhöld tjaldbúðarinnar, til hverrar þjónustugjörðar í henni sem vera skal, svo og allir hælar, sem henni tilheyra, og allir hælar, sem forgarðinum tilheyra, skulu vera af eiri.

20 Þú skalt bjóða Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp.

21 Í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið, sem er fyrir framan sáttmálið, skal Aron og synir hans tilreiða þá frammi fyrir Drottni, frá kveldi til morguns. Er það ævinleg skyldugreiðsla, er á Ísraelsmönnum hvílir frá kyni til kyns.

28 Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons.

Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði.

Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti.

Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti,

og skulu þeir til þess taka gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.

Þeir skulu gjöra hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull með forkunnarlegu hagvirki.

Á honum skulu vera tveir axlarhlýrar, festir við báða enda hans, svo að hann verði festur saman.

Og hökullindinn, sem á honum er til að gyrða hann að sér, skal vera með sömu gerð og áfastur honum: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.

Því næst skalt þú taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn Ísraels sona:

10 Sex af nöfnum þeirra á annan steininn og nöfn hinna sex, er eftir verða, á hinn steininn, eftir aldri þeirra.

11 Þú skalt grafa nöfn Ísraels sona á báða steinana með steinskurði, innsiglisgrefti, og greypa þá inn í umgjarðir af gulli.

12 Og þú skalt festa báða steinana á axlarhlýra hökulsins, að þeir séu minnissteinar Ísraelsmönnum, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar.

13 Og þú skalt gjöra umgjarðir af gulli

14 og tvær festar af skíru gulli. Þú skalt gjöra þær snúnar sem fléttur, og þú skalt festa þessar fléttuðu festar við umgjarðirnar.

15 Þú skalt og búa til dómskjöld, gjörðan með listasmíði. Skalt þú búa hann til með sömu gerð og hökulinn; af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull skalt þú gjöra hann.

16 Hann skal vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður.

17 Þú skalt alsetja hann steinum í fjórum röðum: eina röð af karneól, tópas og smaragði, er það fyrsta röðin;

18 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis;

19 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst;

20 og fjórða röðin: krýsolít, sjóam og ónýx. Þeir skulu greyptir vera í gull, hver á sínum stað.

21 Steinarnir skulu vera tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og vera með nöfnum þeirra. Þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum.

22 Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli.

23 Þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli og festa þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins.

24 Síðan skalt þú festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins.

25 En tvo enda beggja snúnu festanna skalt þú festa við umgjarðirnar tvær og festa þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan.

26 Þá skalt þú enn gjöra tvo hringa af gulli og festa þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit.

27 Og enn skalt þú gjöra tvo hringa af gulli og festa þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann er tengdur saman, fyrir ofan hökullindann.

28 Nú skal knýta brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann liggi fyrir ofan hökullindann, og mun þá eigi brjóstskjöldurinn losna við hökulinn.

29 Aron skal bera nöfn Ísraels sona í dómskildinum á brjósti sér, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til stöðugrar minningar frammi fyrir Drottni.

30 Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni.

31 Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura.

32 Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr.

33 Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring,

34 svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum.

35 Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki.

36 Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.`

37 Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera.

38 Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni.

39 Þú skalt tiglvefa kyrtilinn af baðmull og gjöra vefjarhött af baðmull og búa til glitofið belti.

40 Þú skalt og gjöra kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skalt þú gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði.

41 Þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans með honum í það, og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og helga þá til að þjóna mér í prestsembætti.

42 Þú skalt og gjöra þeim línbrækur til að hylja með blygðun þeirra. Þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri.

43 Í þeim skal Aron og synir hans vera, er þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að embætta í helgidóminum, að þeir eigi baki sér sekt og deyi. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og niðja hans eftir hann.