Add parallel Print Page Options

Það bar til á dögum Ahasverusar _ það er Ahasverusar þess, er ríkti frá Indlandi til Blálands yfir hundrað tuttugu og sjö skattlöndum _

í þá daga er Ahasverus konungur sat á konungsstóli sínum í borginni Súsa,

á þriðja ríkisári hans, að hann hélt veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum. Sátu þá hershöfðingjarnir í Persíu og Medíu, tignarmennirnir og skattlandstjórarnir í boði hans.

Sýndi hann þá auðæfi síns veglega konungdóms og dýrðarskraut tignar sinnar í marga daga _ hundrað og áttatíu daga.

Og er þessir dagar voru liðnir, hélt konungur veislu öllu fólki, sem var í borginni Súsa, bæði háum og lágum, í sjö daga, í forgarðinum að hallargarði konungs.

Þar héngu hvítir baðmullardúkar og purpurabláir, festir með snúrum af býssus og rauðum purpura í silfurhringa og á marmarasúlum, legubekkirnir voru úr gulli og silfri, á gólfi lögðu alabastri, hvítum marmara, perlumóðursteini og svörtum marmara.

En drykkir voru inn bornir í gullkerum, og voru hver kerin öðrum ólík, og þar var gnægð konunglegs víns, eins og konunglegu örlæti sómir.

Og drykkjan fór fram eftir því fyrirmæli, að enginn skyldi halda drykk að mönnum, því að konungur hafði lagt svo fyrir alla frammistöðumenn í höll sinni, að þeir skyldu svo gjöra sem hverjum manni þóknaðist.

Vastí drottning hélt og konum veislu í konunglegri höll, er Ahasverus konungur átti.

10 En á sjöunda degi, þá er konungur var hreifur af víni, bauð hann Mehúman, Bista, Harbóna, Bigta og Abagta, Setar og Karkas, þeim sjö hirðmönnum, er þjónuðu Ahasverusi konungi,

11 að sækja Vastí drottningu og leiða hana inn fyrir konung með konunglega kórónu á höfði, til þess að hann gæti sýnt þjóðunum og höfðingjunum fegurð hennar, því að hún var fríð sýnum.

12 En Vastí drottning vildi ekki koma eftir boði konungs, er hirðmennirnir fluttu. Þá reiddist konungur ákaflega, og heiftin brann honum í brjósti.

13 Og konungur sagði við vitringana, sem þekktu tímana _ því að þannig voru orð konungs lögð fyrir alla þá, er þekktu lög og rétt,

14 og þeir, sem stóðu honum næstir, voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar Persa og Meda, er litu auglit konungs og höfðu æðstu sætin í ríkinu _:

15 "Hverjum dómi skal Vastí drottning sæta að lögum fyrir það, að hún hlýddi eigi orðsending Ahasverusar konungs, þeirri er hirðmennirnir fluttu?"

16 Þá sagði Memúkan í áheyrn konungs og höfðingjanna: "Vastí drottning hefir ekki einungis brotið á móti konunginum, heldur einnig á móti öllum höfðingjunum og öllum þjóðunum, sem búa í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs.

17 Því að athæfi drottningar mun berast út til allra kvenna og gjöra eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra, er sagt verður: ,Ahasverus konungur bauð að leiða Vastí drottningu fyrir sig, en hún kom ekki.`

18 Og þegar í dag munu hefðarfrúr Persa og Meda, þær er frétt hafa athæfi drottningar, segja þetta öllum höfðingjum konungs, og mun það valda fullnógri fyrirlitningu og reiði.

19 Ef konungi þóknast svo, þá láti hann konunglegt boð út ganga og sé það ritað í lög Persa og Meda, svo að því verði ekki breytt, að Vastí skuli ekki framar koma fyrir auglit Ahasverusar konungs, og konunglega tign hennar gefi konungur annarri, sem er betri en hún.

20 Þegar nú úrskurður konungs, er hann kveður upp, verður kunnur um allt ríki hans, sem er mjög stórt, þá munu allar konur sýna mönnum sínum virðingu, bæði háum og lágum."

21 Þessi tillaga geðjaðist bæði konunginum og höfðingjunum, og konungur fór að ráðum Memúkans.

22 Og hann sendi bréf til allra skattlanda konungs, í sérhvert land eftir skrift þess lands og til sérhverrar þjóðar á hennar tungu, að hver maður skyldi vera húsbóndi á sínu heimili og mæla allt það, er honum líkaði.

Eftir þessa atburði, þá er Ahasverusi konungi var runnin reiðin, minntist hann Vastí og þess, er hún hafði gjört, svo og þess, hver dómur hafði yfir hana gengið.

Þá sögðu menn konungs, þeir er honum þjónuðu: "Leiti menn að ungum, fríðum meyjum handa konunginum,

og konungur setji til menn um öll skattlönd ríkis síns, er safni saman öllum ungum, fríðum meyjum til borgarinnar Súsa, í kvennabúrið, undir umsjá Hegaí, geldings konungs, þess er geymir kvennanna, svo að hann annist um hreinsunarundirbúning þeirra.

Og sú stúlka, sem þóknast konungi, verði drottning í stað Vastí." Þetta líkaði konungi vel, og hann gjörði svo.

En í borginni Súsa var Gyðingur nokkur, að nafni Mordekai Jaírsson, Símeísonar, Kíssonar, Benjamíníti,

er fluttur hafði verið frá Jerúsalem með þeim hernumdu, er fluttir voru burt með Jekonja Júdakonungi, þeim er Nebúkadnesar Babel-konungur flutti burt.

Og hann var fósturfaðir Hadassa, það er Esterar, dóttur föðurbróður hans, því að hún var föður- og móðurlaus. Og stúlkan var fagurvaxin og fríð sýnum, og er faðir hennar og móðir önduðust, þá hafði Mordekai tekið hana sér í dóttur stað.

Er boð konungs og tilskipun hans varð kunn og safnað var saman mörgum stúlkum til borgarinnar Súsa undir umsjá Hegaí, þá var og Ester tekin til konungshallarinnar, undir umsjá Hegaí kvennavarðar.

Og stúlkan geðjaðist honum og fann náð fyrir augum hans. Fyrir því flýtti hann sér að fá henni það, er hún þurfti til hreinsunarundirbúnings síns, og þann mat, er henni bar, svo og að fá henni þær sjö þernur úr konungshöllinni, er henni voru ætlaðar. Og hann fór með hana og þernur hennar á besta staðinn í kvennabúrinu.

10 Ester hafði ekki sagt, hverrar þjóðar hún væri né frá ætt sinni, því að Mordekai hafði boðið henni að segja eigi frá því.

11 En Mordekai gekk á degi hverjum fyrir framan forgarð kvennabúrsins til þess að vita, hvernig Ester liði og hvað um hana yrði.

12 Og er röðin kom að hverri stúlku um sig, að hún skyldi ganga inn fyrir Ahasverus konung, eftir tólf mánaða undirbúningsfrest samkvæmt kvennalögunum _ því að svo langur tími gekk til hreinsunarundirbúnings þeirra: sex mánuðir með myrruolíu og sex mánuðir með ilmsmyrslum og öðru því, er til undirbúnings kvenna heyrir _

13 þegar stúlkan þá gekk inn fyrir konung, var henni fengið allt, er hún bað um, að það færi með henni úr kvennabúrinu til konungshallarinnar.

14 Um kveldið gekk hún inn, en að morgni sneri hún aftur í hið annað kvennabúr, undir umsjá Saasgasar, geldings konungs, þess er geymdi hjákvennanna. Mátti hún þá eigi framar koma inn fyrir konung, nema ef konungi hefði geðjast vel að henni og hún væri sérstaklega kölluð.

15 Þegar nú röðin kom að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekai, er hann hafði tekið sér í dóttur stað, að hún skyldi inn ganga fyrir konung, þá bað hún ekki um neitt, nema það sem Hegaí geldingur konungs, kvennavörðurinn, tiltók. Og Ester fann náð í augum allra þeirra, er hana sáu.

16 Og Ester var tekin inn til Ahasverusar konungs, inn í hina konunglegu höll hans, í tíunda mánuðinum _ það er tebetmánuður _ á sjöunda ríkisstjórnarári hans.

17 Og konungur fékk meiri ást á Ester en öllum öðrum konum, og hún ávann sér náð hans og þokka, meir en allar hinar meyjarnar. Og hann setti hina konunglegu kórónu á höfuð henni og gjörði hana að drottningu í stað Vastí.

18 Og konungur hélt mikla veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum, Esterar-veislu, lét halda hvíldardag í skattlöndunum og gaf gjafir með konunglegu örlæti.

19 Þá er meyjum var í annað sinn safnað og Mordekai sat í konungshliði _

20 en Ester hafði ekki sagt frá ætt sinni eða hverrar þjóðar hún væri, svo sem Mordekai hafði boðið henni, með því að Ester hlýddi fyrirmælum Mordekai, eins og þegar hún var í fóstri hjá honum _

21 í þann tíma, þá er Mordekai sat í konungshliði, reiddust Bigtan og Teres, tveir geldingar konungs, af þeim er geymdu dyranna, og leituðu eftir að leggja hendur á Ahasverus konung.

22 Þessa varð Mordekai áskynja og sagði Ester drottningu frá því, en Ester sagði konungi frá í nafni Mordekai.

23 Og er málið var rannsakað og þetta reyndist satt að vera, þá voru þeir báðir festir á gálga. Og þetta var ritað í árbókina í viðurvist konungs.