Daníel 3:19-25
Icelandic Bible
19 Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afmyndaðist, og hann skipaði að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann.
20 Og hann bauð rammefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í brennandi eldsofninn.
21 Síðan voru þessir menn bundnir í nærfötum sínum, kyrtlum, skikkjum og öðrum klæðnaði sínum og þeim kastað inn í hinn brennandi eldsofn.
22 Og sökum þess að skipun konungs var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá varð eldsloginn að bana mönnunum, sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó.
23 En þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, féllu bundnir niður í hinn brennandi eldsofn.
24 Þá varð Nebúkadnesar konungur forviða og spratt upp skyndilega. Hann tók til máls og sagði við ráðgjafa sína: "Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?" Þeir svöruðu konunginum og sögðu: "Jú, vissulega, konungur!"
25 Hann svaraði og sagði: "Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna."
Read full chapterby Icelandic Bible Society