Add parallel Print Page Options

Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa, það er honum vitraðist um Ísrael á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs, tveimur árum fyrir jarðskjálftann.

Hann sagði: Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem. Þá munu hagar hjarðmannanna drúpa og Karmeltindur skrælna.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Damaskusborgar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir þresktu Gíleað með þreskisleðum af járni,

mun ég senda eld á hús Hasaels, og hann mun eyða höllum Benhadads.

Ég mun brjóta slagbrand Damaskus og útrýma íbúunum úr Glæpadal og þeim, er ber veldissprotann, frá Yndishúsum, og Sýrlendingar skulu herleiddir verða til Kír, _ segir Drottinn.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Gasa vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir herleiddu heil þorp til þess að selja í hendur Edómítum,

mun ég senda eld gegn múr Gasa, og hann mun eyða höllum hennar.

Ég mun útrýma íbúunum úr Asdód og þeim, er ber veldissprotann, frá Askalon og því næst snúa hendi minni gegn Ekron, til þess að þeir, sem eftir eru af Filistum, skuli undir lok líða, _ segir Drottinn Guð.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Týrusar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir seldu heil þorp í hendur Edómítum og minntust ekki bræðrasáttmálans,

10 mun ég senda eld gegn múrum Týrusar, og hann mun eyða höllum hennar.

11 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Edómíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir eltu bræðraþjóð sína með sverði og kæfðu alla meðaumkun, svo að hatur þeirra sundurreif endalaust og þeir geymdu stöðuglega heift sína,

12 mun ég senda eld gegn Teman, og hann mun eyða höllum Bosra.

13 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ammóníta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir ristu á kvið þungaðar konurnar í Gíleað til þess að færa út landamerki sín,

14 vil ég kveikja eld í múrum Rabba, og hann skal eyða höllum hennar, þegar æpt verður heróp á orustudeginum, þegar stormurinn geisar á degi fellibyljanna.

15 Og konungur þeirra verður að fara í útlegð með hinum, hann og höfðingjar hans, _ segir Drottinn.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Móabíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir brenndu bein Edómítakonungs að kalki,

vil ég senda eld gegn Móab, og hann mun eyða höllum Keríjótborgar. Og Móabítar munu deyja í vopnagný, við heróp og lúðurhljóm.

Ég vil afmá stjórnandann meðal þeirra og deyða alla höfðingja þeirra með honum, _ segir Drottinn.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Júdamanna vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins og eigi haldið boðorð hans, heldur látið falsgoð sín villa sig, þau er feður þeirra eltu,

vil ég senda eld gegn Júda, og hann mun eyða höllum Jerúsalem.

Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ísraelsmanna vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir selja saklausan manninn fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó,

þeir fíkjast í moldarkornin á höfði hinna snauðu og hrinda aumingjunum í ógæfu, faðir og sonur ganga til kvensniftar til þess að vanhelga mitt heilaga nafn,

þeir liggja á veðteknum klæðum hjá hverju altari og drekka sektarvín í húsi Guðs síns.

Og þó ruddi ég Amorítum úr vegi þeirra, er svo voru háir sem sedrustré og svo sterkir sem eikitré. Ég eyddi ávöxtum þeirra að ofanverðu og rótum þeirra að neðan.

10 Ég flutti yður út af Egyptalandi og leiddi yður í fjörutíu ár í eyðimörkinni, til þess að þér mættuð eignast land Amoríta.

11 Ég uppvakti spámenn meðal sona yðar og Nasírea meðal æskumanna yðar. Er þetta eigi svo, Ísraelsmenn? _ segir Drottinn.

12 En þér gáfuð Nasíreunum vín að drekka og bönnuðuð spámönnunum að spá!

13 Sjá, ég vil láta jörðina undir yður riða, eins og vagn riðar, sem hlaðinn er kornkerfum.

14 Þá skal hinn frái ekki hafa neitt hæli að flýja í og hinn sterki ekki fá neytt krafta sinna og kappinn skal ekki forða mega fjörvi sínu.

15 Bogmaðurinn skal eigi fá staðist, hinn frái eigi fá komist undan og riddarinn ekki forða mega fjörvi sínu.

16 Og hinn hugdjarfasti meðal kappanna _ nakinn skal hann á þeim degi í burt flýja, _ segir Drottinn.

Heyrið þetta orð, sem Drottinn hefir talað gegn yður, þér Ísraelsmenn, gegn öllum þeim kynstofni, sem ég leiddi út af Egyptalandi, svolátandi:

Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar. Þess vegna hegni ég yður fyrir allar misgjörðir yðar.

Mega tveir menn verða samferða, nema þeir mæli sér mót?

Mun ljónið öskra í skóginum, ef það hefir enga bráð? Mun ljónshvolpurinn láta til sín heyra í bæli sínu, ef hann hefir engu náð?

Getur fuglinn komið í gildruna á jörðinni, ef engin snara er þar fyrir hann? Hrökkur gildran upp af jörðinni, nema eitthvað hafi í hana fengist?

Verður lúðurinn svo þeyttur innan borgar, að fólkið flykkist ekki saman í angist? Vill nokkur ógæfa svo til í borginni, að Drottinn sé ekki valdur að henni?

Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.

Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast? Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá?

Kallið út yfir hallirnar í Asdód og hallirnar í Egyptalandi og segið: Safnist saman upp á Samaríufjöll og lítið á hina miklu ókyrrð í borginni og ofbeldisverkin inni í henni.

10 Þeir kunna ekki rétt að gjöra _ segir Drottinn _, þeir sem hrúga upp ofríki og kúgun í höllum sínum.

11 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Fjandmenn munu umkringja landið á alla vegu og rífa niður virki þín, og hallir þínar munu rændar verða.

12 Svo segir Drottinn: Eins og hirðirinn bjargar tveimur fótum eða snepli af eyra úr gini ljónsins, svo skulu Ísraelsmenn bjargast, þeir er sitja í Samaríu í legubekkjarhorni og á hvílbeðjarhægindum.

13 Heyrið og verið vottar að þessu gegn Jakobs húsi, segir Drottinn alvaldur, Guð allsherjar:

14 Þann dag, er ég hegni Ísraelsmönnum fyrir glæpi þeirra, vil ég láta hegninguna koma niður á ölturunum í Betel, til þess að altarishornin verði afhöggin og falli til jarðar.

15 Þá vil ég brjóta niður vetrarhallirnar ásamt sumarhöllunum, og fílabeinshallirnar skulu farast og mörg hús eyðileggjast, _ segir Drottinn.