Add parallel Print Page Options

11 En postularnir og bræðurnir í Júdeu heyrðu, að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs.

Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem, deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu:

"Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim."

En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti:

"Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá, frá mér numinn, sýn, hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín.

Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins,

og ég heyrði rödd segja við mig: ,Slátra nú, Pétur, og et!`

En ég sagði: ,Nei, Drottinn, engan veginn, því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn.`

Í annað sinn sagði rödd af himni: ,Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!`

10 Þetta gjörðist þrem sinnum, og aftur var allt dregið upp til himins.

11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið, sem ég var í, sendir til mín frá Sesareu.

12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða, og vér gengum inn í hús mannsins.

13 Hann sagði oss, hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu, er sagði: ,Send þú til Joppe og lát sækja Símon, er kallast Pétur.

14 Hann mun orð til þín mæla, og fyrir þau munt þú hólpinn verða og allt heimili þitt.`

15 En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi.

16 Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.`

17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?"

18 Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs."

19 Þeir, sem dreifst höfðu vegna ofsóknarinnar, sem varð út af Stefáni, fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En Gyðingum einum fluttu þeir orðið.

20 Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.

21 Og hönd Drottins var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.

22 Og fregnin um þá barst til eyrna safnaðarins í Jerúsalem, og þeir sendu Barnabas til Antíokkíu.

23 Þegar hann kom og sá verk Guðs náðar, gladdist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drottin af öllu hjarta.

24 Því hann var góður maður, fullur af heilögum anda og trú. Og mikill fjöldi manna gafst Drottni.

25 Þá fór hann til Tarsus að leita Sál uppi.

26 Þegar hann hafði fundið hann, fór hann með hann til Antíokkíu. Þeir voru síðan saman heilt ár í söfnuðinum og kenndu fjölda fólks. Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir.

27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu.

28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram, og af gift andans sagði hann fyrir, að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar.

29 En lærisveinarnir samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu.

30 Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.

12 Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim.

Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði.

Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna.

Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn.

Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.

Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins.

Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: "Rís upp skjótt!" Og fjötrarnir féllu af höndum hans.

Þá sagði engillinn við hann: "Gyrð þig og bind á þig skóna!" Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: "Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!"

Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn.

10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum.

11 Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: "Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs."

12 Og er hann hafði áttað sig, gekk hann að húsi Maríu, móður Jóhannesar, er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.

13 Hann knúði hurð fordyrisins, og stúlka að nafni Róde gekk til dyra.

14 Þegar hún þekkti málróm Péturs, gáði hún eigi fyrir fögnuði að ljúka upp fordyrinu, heldur hljóp inn og sagði, að Pétur stæði fyrir dyrum úti.

15 Þeir sögðu við hana: "Þú ert frávita." En hún stóð fast á því, að svo væri sem hún sagði. "Það er þá engill hans," sögðu þeir.

16 En Pétur hélt áfram að berja, og þegar þeir luku upp, sáu þeir hann og urðu furðu lostnir.

17 Hann benti þeim með hendinni að vera hljóðir, skýrði þeim frá, hvernig Drottinn hafði leitt hann út úr fangelsinu, og bað þá segja Jakobi og bræðrunum frá þessu. Síðan gekk hann út og fór í annan stað.

18 Þegar dagur rann, kom ekki lítið fát á hermennina út af því, hvað af Pétri væri orðið.

19 Heródes lét leita hans, en fann hann ekki. Hann lét þá yfirheyra varðmennina og bauð síðan að taka þá af lífi. Síðan fór hann úr Júdeu niður til Sesareu og sat þar um kyrrt.

20 Heródes hafði verið harla gramur Týrverjum og Sídóningum. Komu þeir saman á fund hans, fengu Blastus, stallara konungs, til fylgis við sig og báðust friðar, en land þeirra var háð landi konungs um vistaföng.

21 Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu.

22 En lýðurinn kallaði: "Guðs rödd er þetta, en eigi manns."

23 Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó.

24 En orð Guðs efldist og breiddist út.

25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.