Add parallel Print Page Options

14 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.

En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.

Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra.

Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum.

Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá.

Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.

Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið.

Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.

Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,

10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.

11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."

12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.

13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.

14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:

15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.

16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.

17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."

18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.

19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.

20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.

21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,

22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."

23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.

24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.

25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu

26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.

27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.

28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.

15 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse."

Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.

Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra, og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu frá afturhvarfi heiðingjanna og vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna.

Þegar þeir komu til Jerúsalem, tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir, og skýrðu þeir frá, hversu mikið Guð hefði látið þá gjöra.

Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."

Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál.

Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú.

Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss.

Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni.

10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

11 Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir."

12 Þá sló þögn á allan hópinn, og menn hlýddu á Barnabas og Pál, er þeir sögðu frá, hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna.

13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu, sagði Jakob: "Bræður, hlýðið á mig.

14 Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.

15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, svo sem ritað er:

16 Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur,

17 svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta

18 kunnugt frá eilífð.

19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs,

20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði.

21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag."

22 Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn meðal bræðranna.

23 Þeir rituðu með þeim: "Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína.

24 Vér höfum heyrt, að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar, án þess vér hefðum þeim neitt um boðið.

25 Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli,

26 mönnum, er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists.

27 Vér sendum því Júdas og Sílas, og boða þeir yður munnlega hið sama.

28 Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er,

29 að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir."

30 Þeir voru nú sendir af stað og komu norður til Antíokkíu, kölluðu saman söfnuðinn og skiluðu bréfinu.

31 En er menn lásu það, urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun.

32 Júdas og Sílas, sem sjálfir voru spámenn, hvöttu bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá.

33 Þegar þeir höfðu dvalist þar um hríð, kvöddu þeir bræðurna og báðu þeim friðar og héldu aftur til þeirra, sem höfðu sent þá.

35 En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu, kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð Drottins.

36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: "Förum nú aftur og vitjum bræðranna í hverri borg, þar sem vér höfum boðað orð Drottins, og sjáum, hvað þeim líður."

37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes, er kallaður var Markús.

38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann, er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim.

39 Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur.

40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað, og fólu bræðurnir hann náð Drottins.

41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.

16 Hann kom til Derbe og Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt, en faðir hans var grískur.

Bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð.

Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga, er voru í þeim byggðum, því að allir vissu þeir, að faðir hans var grískur.

Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær.

En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.

Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.

Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi.

Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: "Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!"

10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis

12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga.

13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar.

14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.

15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: "Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin." Þessu fylgdi hún fast fram.

16 Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá.

17 Hún elti Pál og oss og hrópaði: "Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!"

18 Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: "Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni." Og hann fór út á samri stundu.

19 Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina.

20 Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: "Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar

21 og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja."

22 Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá.

23 Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega.

24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim.

25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá.

26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum.

27 Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna.

28 Þá kallaði Páll hárri raustu: "Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!"

29 En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi.

30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: "Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?"

31 En þeir sögðu: "Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt."

32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans.

33 Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk.

34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð.

35 Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: "Lát þú menn þessa lausa."

36 Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: "Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði."

37 En Páll sagði við þá: "Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út."

38 Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir,

39 og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni.

40 Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað.