Add parallel Print Page Options

55 En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði

56 og sagði: "Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði."

57 Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður.

58 Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét.

59 Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: "Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn."

60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: "Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar." Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.

Sál lét sér vel líka líflát hans. Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir.

Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla.

En Sál gjörði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.

Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.

Filippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar.

Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði.

Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir.

Mikill fögnuður varð í þeirri borg.