A A A A A
Bible Book List

Síðara bréf Páls til Kori 1-4 Icelandic Bible (ICELAND)

Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,

sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.

Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.

En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.

Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.

Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.

Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.

10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.

11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.

12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs.

13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það,

14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú.

15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi.

16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu.

17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé "já, já" sama og "nei, nei"?

18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.

19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".

20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar.

21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss.

22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.

23 Ég kalla Guð til vitnis og legg líf mitt við, að það er af hlífð við yður, að ég hef enn þá ekki komið til Korintu.

24 Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.

En það ásetti ég mér, að koma ekki aftur til yðar með hryggð.

Ef ég hryggi yður, hver er þá sá sem gleður mig? Sá sem ég er að hryggja?

Ég skrifaði einmitt þetta til þess að þeir, sem áttu að gleðja mig, skyldu ekki hryggja mig, er ég kæmi. Ég hef það traust til yðar allra, að gleði mín sé gleði yðar allra.

Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég yður með mörgum tárum, ekki til þess að þér skylduð hryggjast, heldur til þess að þér skylduð komast að raun um þann kærleika, sem ég ber til yðar í svo ríkum mæli.

En ef nokkur hefur orðið til þess að valda hryggð, þá hefur hann ekki hryggt mig, heldur að vissu leyti _ að ég gjöri ekki enn meira úr því _ hryggt yður alla.

Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefur hlotið af yður allflestum.

Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð.

Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd.

Því að í þeim tilgangi skrifaði ég yður, til þess að komast að raun um staðfestu yðar, hvort þér væruð hlýðnir í öllu.

10 En hverjum sem þér fyrirgefið, honum fyrirgef ég líka. Og það sem ég hef fyrirgefið, hafi ég þurft að fyrirgefa nokkuð, þá hefur það verið vegna yðar fyrir augliti Krists,

11 til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.

12 En er ég kom til Tróas til að boða fagnaðarerindið um Krist og mér stóðu þar opnar dyr í þjónustu Drottins,

13 þá hafði ég enga eirð í mér, af því að ég hitti ekki Títus, bróður minn, svo að ég kvaddi þá og fór til Makedóníu.

14 En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.

15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast;

16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur?

17 Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.

Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður?

Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum.

Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.

En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.

Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,

sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.

En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,

hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?

Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.

10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.

11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.

12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung

13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa.

14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún.

15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.

16 En "þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin."

17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.

18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.

Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.

Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.

En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.

Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.

Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.

Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.

En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.

Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,

ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.

10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.

11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.

12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.

13 Vér höfum sama anda trúarinnar sem skrifað er um í ritningunni: "Ég trúði, þess vegna talaði ég." Vér trúum líka og þess vegna tölum vér.

14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður.

15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.

16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.

17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.

18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes