Jóhannesarguðspjall 15:18-16:4
Icelandic Bible
18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.
19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.
20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.
21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.
22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.
23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn.
24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.
25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.`
26 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.
27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi.
16 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.
2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.
3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.
4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.
by Icelandic Bible Society