Add parallel Print Page Options

Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona.

Hún grætur sáran um nætur, og tárin streyma ofan vanga hennar. Enginn er sá er huggi hana af öllum ástmönnum hennar. Allir vinir hennar hafa brugðist henni, þeir eru orðnir óvinir hennar.

Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum.

Vegirnir til Síonar syrgja, af því að engir koma til hátíðahalds. Öll hlið hennar eru eydd, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og sjálf er hún hrygg í hjarta.

Fjendur hennar eru orðnir ofan á, óvinir hennar lifa ánægðir. Því að Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda, börn hennar fóru burt herleidd fyrir kúgaranum.

Þannig fór burt frá Síonarborg allt skraut hennar. Höfðingjar hennar eru orðnir eins og hrútar, sem ekkert haglendi finna, og þeir fóru magnþrota burt fyrir ofsóknaranum.

Jerúsalem minnist á eymdardögum sínum og mæðudögum allra kjörgripa sinna, er hún átti forðum daga. Þegar lýður hennar féll í hendur kúgarans, hjálpaði enginn henni. Kúgararnir horfðu á það, hlógu að hrakförum hennar.

Jerúsalem hefir syndgað stórlega, fyrir því varð hún að viðurstyggð. Allir þeir er dáðu hana, fyrirlíta hana, af því að þeir hafa séð blygðan hennar, og hún andvarpar sjálf og snýr sér undan.

Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar, hún hugsaði ekki um endalokin. Hún féll undradjúpt, enginn verður til að hugga hana. Lít, Drottinn, á eymd mína, því að óvinirnir hrósa sigri.

10 Kúgarinn rétti út hönd sína eftir öllum dýrgripum hennar. Já, hún sá, hversu heiðingjarnir gengu inn í helgidóm hennar, sem þú hefir um boðið: "Þeir skulu ekki koma í söfnuð þinn."

11 Allur lýður hennar andvarpar, leitar sér viðurværis, gefur dýrgripi sína fyrir matbjörg til þess að draga fram lífið. Sjá þú, Drottinn, og lít á, hversu ég er fyrirlitin.

12 Komið til mín allir þér, sem um veginn farið, sjáið og skoðið, hvort til sé önnur eins kvöl og mín, sú er mér hefir verið gjörð, mér, sem Drottinn hrelldi á degi sinnar brennandi reiði.

13 Af hæðum sendi hann eld og lét hann fara niður í bein mín, lagði net fyrir fætur mér, rak mig aftur, gjörði mig auða, sífelldlega sjúka.

14 Ok synda minna er þungt orðið fyrir hendi hans. Þær eru bundnar saman, lagðar mér á háls, hann hefir lamað þrótt minn. Drottinn hefir selt mig í hendur þeirra, er ég fæ eigi staðist í móti.

15 Drottinn hefir hafnað hetjum mínum, öllum þeim, er í mér voru, hann hefir boðað hátíð gegn mér til þess að knosa æskumenn mína. Drottinn hefir troðið vínlagarþró meynni Júda-dóttur.

16 Yfir þessu græt ég, augu mín fljóta í tárum. Því að huggarinn er langt í burtu frá mér, sá er hressti sál mína. Börn mín eru komin í örbirgð, því að óvinirnir báru hærri hlut.

17 Síon réttir út hendur sínar, enginn verður til að hugga hana. Drottinn bauð út á móti Jakob fjendum hans allt í kring. Jerúsalem er orðin að viðurstyggð meðal þeirra.

18 Drottinn er réttlátur, því að ég þrjóskaðist gegn boði hans. Ó, heyrið það, allir lýðir, og sjáið kvöl mína. Meyjar mínar og yngismenn fóru burt herleidd.

19 Ég kallaði á ástmenn mína, þeir sviku mig. Prestar mínir og öldungar önduðust í borginni, þá er þeir leituðu sér bjargar til þess að draga fram lífið.

20 Sjá, Drottinn, hve ég er hrædd, hve iður mín ólga. Hjartað berst í brjósti mér, því að ég var svo þverúðarfull. Sverðið svipti mig börnunum úti fyrir, drepsóttin í húsum inni.

21 Þeir heyrðu, hversu ég andvarpaði, enginn varð til að hugga mig. Allir óvinir mínir spurðu óhamingju mína, glöddust, af því að þú hefir gjört þetta. Þú lætur þann dag koma, er þú hefir boðað, þá verða þeir jafningjar mínir.

22 Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt, og gjör við þá, eins og þú hefir gjört við mig vegna allra synda minna. Því að andvörp mín eru mörg, og hjarta mitt er sjúkt.