Add parallel Print Page Options

Heyrið þetta, þér prestar! Takið eftir, þér Ísraelsmenn! Hlýð þú á, konungs hús! Þér áttuð að framfylgja réttlæti, en eruð orðnir snara fyrir Mispa og útþanið net á Tabor.

Þeir grófu djúpa gröf fráhvarfsins, en ég mun refsa þeim öllum.

Ég þekki Efraím, og Ísrael getur ekki dulist fyrir mér. Já, nú hefir þú drýgt hór, Efraím, Ísrael saurgað sig.

Verk þeirra leyfa þeim eigi að snúa aftur til Guðs þeirra, því að hórdómsandi býr í þeim, og Drottin þekkja þeir ekki.

En Ísraels tign mun vitna í gegn þeim, og Ísrael og Efraím munu steypast vegna misgjörðar þeirra. Júda mun og steypast með þeim.

Þegar þeir þá koma með sauði sína og naut til þess að leita Drottins, þá munu þeir ekki finna hann, hann hefir sagt sig lausan við þá.

Drottni hafa þeir verið ótrúir, því að þeir hafa getið óskilgetin börn. Nú skal tunglkoman eyða þeim og ekrum þeirra.

Þeytið lúðurinn í Gíbeu og básúnuna í Rama! Æpið heróp í Betaven! Óvinirnir á hælum þér, Benjamín!

Efraím skal verða að auðn á degi hirtingarinnar. Ísraels ættkvíslum boða ég áreiðanlega hluti.

10 Höfðingjar Júda eru líkir þeim, sem færa landamerki úr stað; yfir þá vil ég úthella reiði minni eins og vatni.

11 Í Efraím er rétturinn ofríki borinn og fótum troðinn, því að honum þóknaðist að elta fánýt goð.

12 Því varð ég sem mölur Efraím og sem nagandi ormur Júda húsi.

13 Er Efraím sá sjúkdóm sinn og Júda mein sitt, þá leitaði Efraím til Assýríu og sendi til stórkonungsins. En hann megnar ekki að lækna yður né að græða mein yðar,

14 því að ég mun verða eins og dýrið óarga fyrir Efraím og eins og ungt ljón Júda húsi. Ég, ég mun sundurrífa og fara burt, bera burt bráðina, án þess að nokkur bjargi.

15 Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín.