Add parallel Print Page Options

Segið við bræður yðar: "Minn lýður!" og við systur yðar: "Náðþegi!"

Deilið á móður yðar, deilið á hana, því að hún er eigi mín kona og ég er ekki maður hennar, svo að hún fjarlægi hórdóm sinn frá andliti sínu og hjúskaparbrot sín frá brjóstum sínum.

Ella mun ég færa hana úr öllu og láta hana standa nakta, eins og þegar hún fæddist, og gjöra hana eins og eyðimörk og láta hana verða eins og þurrt land og láta hana deyja af þorsta.

Og yfir börn hennar mun ég ekki miskunna mig, því að þau eru hórbörn,

því að móðir þeirra hefir drýgt hór, hún sem þau gat, hefir framið svívirðu. Því að hún sagði: "Ég vil elta friðla mína, sem gefa mér brauð mitt og vatn, ull mína og hör, olífuolíu mína og drykki."

Fyrir því vil ég girða fyrir veg hennar með þyrnum og hlaða vegg fyrir hana, til þess að hún finni ekki stigu sína.

Og þegar hún þá eltir friðla sína, skal hún ekki ná þeim, og er hún leitar þeirra, skal hún ekki finna þá, heldur mun hún segja: "Ég vil fara og snúa aftur til míns fyrra manns, því að þá leið mér betur en nú."

Hún veit þá ekki, að það er ég, sem hefi gefið henni kornið og vínberjalöginn og olífuolíuna og veitt henni gnótt silfurs og gulls, en þeir hafa varið því handa Baal.

Fyrir því vil ég taka aftur korn mitt á korntíðinni og vínberjalög minn, þegar hans ákveðni tími kemur, og nema burt ull mína og hör, er hún skyldi skýla með nekt sinni.

10 Og nú vil ég bera gjöra blygðan hennar í augsýn friðla hennar, _ enginn skal fá hrifið hana úr minni hendi _

11 og gjöra enda á alla kæti hennar, á hátíðir hennar, tunglkomudaga og hvíldardaga og á allar löghátíðir hennar,

12 og eyða víntré hennar og fíkjutré, er hún sagði um: "Þau eru hórgjald, sem friðlar mínir hafa gefið mér!" Og ég vil gjöra þau að kjarrskógi, til þess að villidýrin eti þau.

13 Ég vil hegna henni fyrir daga Baalanna, þá er hún færði þeim reykelsisfórnir og prýddi sig með nefhringum og hálsmenjum og fylgdi friðlum sínum, en gleymdi mér, _ segir Drottinn.

14 Ég vil lokka hana og leiða hana út í eyðimörk og hughreysta hana,

15 og ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal að Vonarhliði, og þá mun hún verða eftirlát eins og á æskudögum sínum og eins og þá er hún fór burt af Egyptalandi.

16 Á þeim degi, _ segir Drottinn _ munt þú ávarpa mig "Maðurinn minn," en ekki framar kalla til mín "Baal minn."

17 Og ég vil venja hana af að hafa nöfn Baalanna á vörum sér, svo að þeirra skal eigi verða framar getið með nafni.

18 Og á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga.

19 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi,

20 ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin.

21 Og á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn. Ég mun bænheyra himininn, og hann mun bænheyra jörðina,

22 og jörðin mun bænheyra kornið, vínberjalöginn og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel.

23 Og ég vil gróðursetja lýð minn í landinu og auðsýna Náðvana náð og segja við Ekki-minn-lýð: "Þú ert minn lýður!" og hann mun segja: "Guð minn!"