Add parallel Print Page Options

31 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli.

Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls.

Var nú gjör hörð atlaga að Sál, og höfðu nokkrir bogmannanna komið auga á hann. Varð hann þá mjög hræddur við bogmennina.

Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: "Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig." En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það.

Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó með honum.

Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og skjaldsveinn hans, allir þennan sama dag.

Er Ísraelsmenn, þeir er bjuggu hinumegin við sléttlendið og þeir er bjuggu hinumegin Jórdanar, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim.

Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli.

Hjuggu þeir af honum höfuðið og flettu hann herklæðum og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin.

10 Og þeir lögðu vopn hans í hof Astörtu, en lík hans hengdu þeir upp á borgarmúrinn í Bet San.

11 En er íbúarnir í Jabes í Gíleað fréttu, hvernig Filistar höfðu farið með Sál,

12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, gengu alla nóttina og tóku lík Sáls og lík sona hans ofan af borgarmúrnum í Bet San. Síðan héldu þeir heim til Jabes og brenndu þar líkin.