Add parallel Print Page Options

Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.

Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð.

Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur.

Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu,

í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni,

í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.

Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.

Read full chapter