Add parallel Print Page Options

18 Á þriðja ríkisári Hósea Elasonar Ísraelskonungs tók ríki Hiskía Akasson Júdakonungs.

Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.

Hann afnam fórnarhæðirnar, braut merkissteinana, hjó í sundur aséruna og mölvaði eirorminn, þann er Móse hafði gjöra látið, því að allt til þess tíma höfðu Ísraelsmenn fært honum reykelsisfórnir, og var hann nefndur Nehústan.

Hiskía treysti Drottni, Ísraels Guði, svo að eftir hann var enginn honum líkur meðal allra Júdakonunga og eigi heldur neinn þeirra, er á undan honum höfðu verið.

Hann hélt sér fast við Drottin, veik eigi frá honum og varðveitti boðorð hans, þau er Drottinn hafði lagt fyrir Móse.

Og Drottinn var með honum. Í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur, var hann lánsamur. Hann braust undan Assýríukonungi og var ekki lengur lýðskyldur honum.

Hann vann og sigur á Filistum alla leið til Gasa og eyddi landið umhverfis hana, jafnt varðmannaturna sem víggirtar borgir.

Read full chapter