Síðari bók konunganna 12-13
Icelandic Bible
12 Á sjöunda ríkisári Jehú varð Jóas konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.
2 Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins alla ævi sína, af því að Jójada prestur hafði kennt honum.
3 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.
4 Og Jóas sagði við prestana: "Allt fé, sem borið er í musteri Drottins sem helgigjafir, fé, sem lagt er á einhvern eftir mati _ fé, sem menn eru metnir eftir _ svo og allt það fé, sem einhver af eigin hvötum ber í musteri Drottins,
5 skulu prestarnir taka til sín, hver af sínum ráðunaut. En þeir skulu og með því gjöra við skemmdir á musterinu, allar skemmdir, sem á því finnast."
6 En á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar konungs höfðu prestarnir enn ekki gjört við skemmdir á musterinu.
7 Þá lét Jóas konungur kalla Jójada yfirprest og hina prestana og mælti til þeirra: "Hvers vegna gjörið þér ekki við skemmdir á musterinu? Nú skuluð þér eigi framar taka við neinu fé af ráðunautum yðar, heldur skuluð þér láta það af hendi fyrir skemmdum á musterinu."
8 Og prestarnir gengu að þeim kostum að taka ekki við fé af lýðnum, en vera og eigi skyldir að gjöra við skemmdir á musterinu.
9 Síðan tók Jójada prestur kistu nokkra, boraði gat á lokið og setti hana hjá altarinu, hægra megin, þegar gengið er inn í musteri Drottins, og létu prestarnir, þeir er geymdu inngöngudyra, í hana allt það fé, er borið var í musteri Drottins.
10 Og er þeir sáu, að mikið fé var komið í kistuna, kom kanslari konungs þangað og æðsti presturinn, og bundu þeir saman allt fé, sem fannst í musteri Drottins, og töldu það.
11 Fengu þeir síðan féð, er vegið hafði verið, verkstjórunum í hendur, þeim er höfðu umsjón með musteri Drottins, en þeir greiddu það trésmiðunum og byggingamönnunum, er störfuðu við musteri Drottins,
12 svo og múrurunum og steinsmiðunum og til þess að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við skemmdir á musteri Drottins, og til alls sem borga þurfti fyrir viðgjörð á musterinu.
13 Þó voru eigi gjörðir neinir silfurkatlar, skarbítar, fórnarskálar, lúðrar né nokkurs konar áhöld úr gulli eða silfri í musteri Drottins, af fé því, sem borið var í musteri Drottins,
14 heldur fengu menn það verkamönnunum, til þess að þeir fyrir það gjörðu við musteri Drottins.
15 En ekki héldu menn reikning við menn þá, er þeir fengu féð í hendur, til þess að þeir greiddu það verkamönnunum, heldur gjörðu þeir það upp á æru og trú.
16 En sektarfórnarféð og syndafórnarféð var eigi borið í musteri Drottins. Það áttu prestarnir.
17 Um þær mundir kom Hasael Sýrlandskonungur, herjaði á Gat og vann hana. En er Hasael ætlaði að fara til Jerúsalem,
18 þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafir þær, er þeir Jósafat, Jóram og Ahasía forfeður hans, Júdakonungar, höfðu helgað, svo og helgigjafir sínar og allt gullið, er til var í fjárhirslum musteris Drottins og konungshallarinnar, og sendi það Hasael Sýrlandskonungi. Hætti hann þá við að fara til Jerúsalem.
19 En það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
20 Þjónar Jóasar hófust handa, gjörðu samsæri og drápu Jóas í Milló-húsi, þar sem gatan liggur niður til Silla.
21 Þeir Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson, þjónar hans, unnu á honum, og hann var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.
13 Á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar Ahasíasonar Júdakonungs varð Jóahas Jehúson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti seytján ár.
2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, þær er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann lét ekki af þeim.
3 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá í hendur Hasael Sýrlandskonungi og Benhadad syni Hasaels allan þann tíma.
4 En Jóahas blíðkaði Drottin, og Drottinn bænheyrði hann, því að hann sá ánauð Ísraels, hversu Sýrlandskonungur kúgaði þá.
5 Og Drottinn sendi Ísrael hjálparmann, svo að þeir losnuðu undan valdi Sýrlendinga, og Ísraelsmenn bjuggu í tjöldum sínum sem áður.
6 Þó létu þeir eigi af syndum Jeróbóams ættar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Þeir héldu áfram að drýgja þær. Aséran stóð og kyrr í Samaríu.
7 Jóahas átti ekkert lið eftir nema fimmtíu riddara, tíu vagna og tíu þúsund fótgönguliða, því að Sýrlandskonungur hafði gjöreytt þeim og gjört þá sem ryk við þreskingu.
8 Það sem meira er að segja um Jóahas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
9 Og Jóahas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og hann var grafinn í Samaríu. Og Jóas sonur hans tók ríki eftir hann.
10 Á þrítugasta og sjöunda ríkisári Jóasar Júdakonungs varð Jóas Jóahasson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sextán ár.
11 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann hélt áfram að drýgja þær.
12 Það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann háði ófrið við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
13 Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jeróbóam settist í hásæti hans. Og Jóas var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum.
14 Elísa tók sótt, er leiddi hann til bana. Fór þá Jóas konungur í Ísrael ofan til hans, grét yfir honum og sagði: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!"
15 En Elísa sagði við hann: "Tak boga og örvar." Og hann færði honum boga og örvar.
16 Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: "Legg hönd þína á bogann." Hann gjörði svo. Þá lagði Elísa hendur sínar ofan á hendur konungs.
17 Síðan mælti hann: "Opna þú gluggann gegnt austri." Og hann gjörði svo. Þá sagði Elísa: "Skjót!" Og hann skaut. Og Elísa mælti: "Sigurör frá Drottni! Já, sigurör yfir Sýrlendingum! Þú munt vinna sigur á Sýrlendingum í Afek, uns þeir eru gjöreyddir."
18 Síðan sagði hann: "Tak örvarnar." Og hann tók þær. Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: "Slá þú á jörðina." Og hann sló þrisvar sinnum, en hætti síðan.
19 Þá gramdist guðsmanninum við hann og sagði: "Þú hefðir átt að slá fimm eða sex sinnum, þá mundir þú hafa unnið sigur á Sýrlendingum, uns þeir hefðu verið gjöreyddir, en nú munt þú aðeins vinna þrisvar sinnum sigur á Sýrlendingum."
20 Elísa dó og var grafinn. En ræningjaflokkar frá Móab brutust þá inn í landið á ári hverju.
21 Og svo bar við, er verið var að grafa mann nokkurn, að menn komu allt í einu auga á ræningjaflokk. Fleygðu þeir þá manninum í gröf Elísa og höfðu sig á brott. En er maðurinn snart bein Elísa, þá lifnaði hann og reis á fætur.
22 Hasael Sýrlandskonungur kreppti að Ísrael alla ævi Jóahasar.
23 En Drottinn miskunnaði þeim og sá aumur á þeim og sneri sér til þeirra sakir sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Vildi hann eigi, að þeir skyldu tortímast, hafði og eigi útskúfað þeim frá augliti sínu til þessa.
24 Og er Hasael Sýrlandskonungur var dáinn og Benhadad sonur hans hafði tekið ríki eftir hann,
25 þá tók Jóas Jóahasson borgirnar aftur frá Benhadad Hasaelssyni, þær er Hasael hafði tekið frá Jóahas föður hans í ófriði. Vann Jóas þrisvar sinnum sigur á honum og náði aftur borgum Ísraels.
by Icelandic Bible Society