Add parallel Print Page Options

Sjálfir vitið þér, bræður, að koma vor til yðar varð ekki árangurslaus.

Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.

Boðun vor er ekki sprottin af villu né af óhreinum hvötum og vér reynum ekki að blekkja neinn.

En Guð hefur talið oss maklega þess að trúa oss fyrir fagnaðarerindinu. Því er það, að vér tölum ekki eins og þeir, er þóknast vilja mönnum, heldur Guði, sem rannsakar hjörtu vor.

Aldrei höfðum vér nein smjaðuryrði á vörum, það vitið þér. Og ekki bjó þar ásælni að baki, _ Guð er vottur þess.

Ekki leituðum vér vegsemdar af mönnum, hvorki yður né öðrum, þótt vér hefðum getað beitt myndugleika sem postular Krists.

Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.

Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.

Read full chapter