Add parallel Print Page Options

30 Þegar Davíð og menn hans komu til Siklag á þriðja degi, þá höfðu Amalekítar gjört herhlaup á Suðurlandið og á Siklag, unnið Siklag og brennt hana.

Höfðu þeir hertekið konur og allt, sem í henni var, bæði smátt og stórt. Engan mann höfðu þeir drepið, en haft fólkið á burt með sér og farið síðan leiðar sinnar.

Og er Davíð og menn hans komu til borgarinnar, sjá, þá var hún brunnin, en konur þeirra, synir og dætur hertekin.

Þá tók Davíð og liðið, sem með honum var, að gráta hástöfum, uns þeir voru uppgefnir að gráta.

Báðar konur Davíðs höfðu verið herteknar, Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.

Var Davíð nú mjög nauðulega staddur, því að liðið hafði við orð að grýta hann, því að menn voru allir sárhryggir vegna sona sinna og dætra. En Davíð hressti sig upp í Drottni, Guði sínum.

Og Davíð sagði við Abjatar prest, son Ahímeleks: "Fær mér hingað hökulinn." Og Abjatar fór með hökulinn til Davíðs.

Og Davíð gekk til frétta við Drottin og mælti: "Á ég að elta þennan ræningjaflokk? Mun ég ná þeim?" Hann svaraði honum: "Eltu þá, því að þú munt vissulega ná þeim og fá bjargað."

Þá lagði Davíð af stað, hann og þau sex hundruð manns, sem hjá honum voru, og þeir komu að Besórlæk. Þar námu þeir staðar, er eftir urðu.

10 Og Davíð hélt áfram með fjögur hundruð manns, en tvö hundruð manns urðu þar eftir, því að þeir máttu eigi yfir Besórlæk komast vegna þreytu.

11 Þá fundu þeir egypskan mann úti á víðavangi og fóru með hann til Davíðs, og þeir gáfu honum mat að eta og vatn að drekka.

12 Þeir gáfu honum sneið af fíkjuköku og tvær rúsínukökur, og át hann það og lifnaði við, því að hann hafði ekki mat etið né vatn drukkið í þrjá daga og þrjár nætur.

13 Og Davíð sagði við hann: "Hvers maður ert þú og hvaðan ert þú?" Hann svaraði: "Ég er egypskur sveinn, þræll Amalekíta nokkurs. Húsbóndi minn skildi mig hér eftir, af því að ég varð sjúkur fyrir þrem dögum.

14 Vér gjörðum herhlaup á suðurland Kreta og á land, sem liggur undir Júda, svo og á suðurland Kalebs, og Siklag brenndum vér upp."

15 Og Davíð sagði við hann: "Viltu vísa mér leið til ræningjaflokks þessa?" Hann svaraði: "Vinn þú mér eið að því við Guð að drepa mig ekki og framselja mig ekki í hendur húsbónda míns, þá skal ég vísa þér leið til ræningjaflokks þessa."

16 Og hann veitti þeim leiðsögu þangað. Ránsmennirnir höfðu þá dreifst um allt landið og átu og drukku og gjörðu sér glaðan dag vegna hins mikla herfangs, sem þeir höfðu tekið í Filistalandi og í Júdalandi.

17 Og Davíð barði á þeim frá því í dögun og allt til kvelds og helgaði þá banni, svo að enginn þeirra komst undan, nema fjögur hundruð sveinar, sem stigu á bak úlföldum og flýðu.

18 Þann veg náði Davíð aftur öllu því, sem Amalekítar höfðu rænt. Og báðum konum sínum bjargaði Davíð.

19 Þá vantaði ekkert, hvorki smátt né stórt, hvorki herfang né sonu og dætur, né nokkuð það, er ránsmennirnir höfðu rænt. Davíð kom aftur með það allt.

20 Þá tóku þeir alla sauðina og nautin og leiddu fram fyrir hann og sögðu: "Þetta er herfang Davíðs."

21 En er Davíð kom til þeirra tvö hundruð manna, er gefist höfðu upp, svo að þeir máttu ekki fylgja honum, og fyrir því verið skildir eftir við Besórlæk, þá fóru þeir í móti Davíð og liðinu, sem með honum var. Og er Davíð kom með liðið, þá heilsuðu þeir þeim.

22 Þá tóku allir ódrengir og varmenni meðal manna þeirra, er með Davíð höfðu farið, til máls og sögðu: "Fyrst þeir fóru ekki með oss, þá viljum vér ekki láta þá fá neitt af herfanginu, sem vér höfum bjargað. Þó má hver maður fá konu sína og sonu. Það mega þeir taka með sér og fara síðan."

23 En Davíð sagði: "Breytið eigi svo, eftir að Drottinn hefir oss slíkt í té látið og varðveitt oss og selt oss í hendur ræningjaflokk þann, sem á oss hafði ráðist.

24 Og hver mun verða á yðar máli í þessu efni? Nei, sama hlut og sá fær, er í bardagann fer, sama hlut skal og sá fá, sem verður eftir hjá farangrinum. Allir skulu þeir fá jafnan hlut."

25 Og við það sat upp frá þeim degi. Og hann gjörði það að lögum og venju í Ísrael, og hefir það haldist fram á þennan dag.

26 Þegar Davíð kom til Siklag, sendi hann öldungunum í Júda, vinum sínum, nokkuð af herfanginu með þessari orðsending: "Sjá, þetta er gjöf yður til handa af herfangi óvina Drottins."

27 Sömuleiðis þeim í Betel, þeim í Ramot-Negeb, þeim í Jattír,

28 þeim í Aroer, þeim í Sífmót, þeim í Estemóa,

29 þeim í Rakal, þeim í borgum Jerahmeelíta, þeim í borgum Keníta,

30 þeim í Horma, þeim í Bór Asan, þeim í Atak,

31 þeim í Hebron, og til allra þeirra staða, þar sem Davíð hafði um farið með menn sína.

31 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli.

Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls.

Var nú gjör hörð atlaga að Sál, og höfðu nokkrir bogmannanna komið auga á hann. Varð hann þá mjög hræddur við bogmennina.

Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: "Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig." En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það.

Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó með honum.

Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og skjaldsveinn hans, allir þennan sama dag.

Er Ísraelsmenn, þeir er bjuggu hinumegin við sléttlendið og þeir er bjuggu hinumegin Jórdanar, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim.

Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli.

Hjuggu þeir af honum höfuðið og flettu hann herklæðum og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin.

10 Og þeir lögðu vopn hans í hof Astörtu, en lík hans hengdu þeir upp á borgarmúrinn í Bet San.

11 En er íbúarnir í Jabes í Gíleað fréttu, hvernig Filistar höfðu farið með Sál,

12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, gengu alla nóttina og tóku lík Sáls og lík sona hans ofan af borgarmúrnum í Bet San. Síðan héldu þeir heim til Jabes og brenndu þar líkin.