Add parallel Print Page Options

19 Akab sagði Jesebel frá öllu því, sem Elía hafði gjört og hversu hann hafði drepið alla spámennina með sverði.

Þá sendi hún mann á fund Elía og lét segja honum: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja nú og síðar: Á morgun í þetta mund skal ég fara svo með líf þitt, sem farið hefir verið með líf sérhvers þeirra."

Þá varð hann hræddur, tók sig upp og hélt af stað til þess að forða lífi sínu. Hann kom til Beerseba, sem er í Júda. Þar lét hann eftir svein sinn.

En sjálfur fór hann eina dagleið á eyðimörku og kom þar sem gýfilrunnur var og settist undir hann. Þá óskaði hann sér að hann mætti deyja og mælti: "Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt, því að mér er eigi vandara um en feðrum mínum."

Síðan lagðist hann fyrir undir gýfilrunninum og sofnaði. Og sjá, engill snart hann og mælti til hans: "Statt upp og et."

Litaðist hann þá um og sá, að eldbökuð kaka lá að höfði honum og vatnskrús. Át hann þá og drakk og lagðist síðan aftur fyrir.

En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann og mælti: "Statt upp og et, því að annars verður leiðin þér of löng."

Stóð hann þá upp, át og drakk og hélt áfram fyrir kraft fæðunnar fjörutíu daga og fjörutíu nætur, uns hann kom að Hóreb, fjalli Guðs.

Read full chapter