Add parallel Print Page Options

16 En orð Drottins kom til Jehú Hananísonar gegn Basa, svolátandi:

"Sakir þess að ég hefi hafið þig úr duftinu og gjört þig höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, en þú fetar í fótspor Jeróbóams og kemur lýð mínum Ísrael til að syndga, svo að þeir egna mig til reiði með syndum sínum,

þá mun ég sópa burt Basa og ætt hans, og fara með ætt þína eins og ætt Jeróbóams Nebatssonar.

Hvern þann, er deyr af ætt Basa innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, er deyr af henni úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."

Það sem meira er að segja um Basa og það er hann gjörði og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

Og Basa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Tirsa, og Ela sonur hans tók ríki eftir hann.

En fyrir munn Jehú spámanns Hananísonar kom dómsorð Drottins yfir Basa og ætt hans, bæði vegna alls þess illa, er hann hafði aðhafst í augsýn Drottins með því að egna hann til reiði með handaverkum sínum, svo að fyrir honum færi sem fyrir ætt Jeróbóams, og líka vegna þess, að hann hafði eytt henni.

Á tuttugasta og sjötta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Ela, sonur Basa, konungur yfir Ísrael og ríkti hann tvö ár í Tirsa.

En Simrí, þjónn hans, foringi fyrir helmingi vagnliðsins, hóf samsæri gegn honum. Og er Ela drakk sig drukkinn í Tirsa, í húsi Arsa, dróttseta í Tirsa,

10 þá kom þar Simrí og vann á honum og drap hann, á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann.

11 En er hann var konungur orðinn og setstur í hásæti, drap hann alla ættmenn Basa _ lét hann engan karlmann eftir verða af konungsættinni _ svo og vandamenn hans og vini.

12 Þannig gjöreyddi Simrí allri ætt Basa, og rættist svo orð Drottins, sem hann hafði talað gegn Basa fyrir munn Jehú spámanns,

13 sakir allra synda hans og synda Ela sonar hans, þeirra er þeir höfðu drýgt og komið Ísrael til að drýgja, að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.

14 Það sem meira er að segja um Ela og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

15 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Simrí konungur og ríkti sjö daga í Tirsa. En liðið sat þá um Gibbeton, sem Filistar áttu.

16 Og er liðið, sem lá í herbúðunum, frétti að Simrí hefði hafið samsæri og drepið konung, þá tók allur Ísrael Omrí, hershöfðingja í Ísrael, til konungs þann dag þar í herbúðunum.

17 Þá hélt Omrí og allur Ísrael með honum frá Gibbeton og settist um Tirsa.

18 En er Simrí sá að borgin var unnin, gekk hann inn í vígi konungshallarinnar og lagði eld í konungshöllina yfir höfði sér og beið svo bana

19 sakir synda þeirra, er hann hafði drýgt með því að gjöra það sem illt var í augum Drottins, með því að feta í fótspor Jeróbóams og drýgja sömu syndirnar, sem hann hafði drýgt, með því að koma Ísrael til að syndga.

20 Það sem meira er að segja um Simrí og samsærið, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

21 Þá skiptist Ísraelslýður. Fylgdi annar hluti lýðsins Tibní Gínatssyni og vildi gjöra hann að konungi, en hinn hlutinn fylgdi Omrí.

22 En þeir, sem Omrí fylgdu, urðu hinum yfirsterkari, er fylgdu Tibní Gínatssyni. En er Tibní var dauður, varð Omrí konungur.

23 Á þrítugasta og fyrsta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Omrí konungur yfir Ísrael og ríkti tólf ár. Sex ár ríkti hann í Tirsa.

24 Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur silfurs, og reisti byggð á fjallinu og kenndi borgina, sem hann byggði, við Semer, er átt hafði fjallið, og nefndi Samaríu.

25 Omrí gjörði það sem illt var í augum Drottins og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum,

26 og fetaði að öllu leyti í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndirnar, sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja, svo að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.

27 Það sem meira er að segja um Omrí og allt sem hann gjörði og hreystiverk hans, þau er hann vann, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

28 Og Omrí lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu. Og Akab sonur hans tók ríki eftir hann.

29 Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár.

30 Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum.

31 Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann.

32 Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu.

33 Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið.

34 Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.

17 Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað, sagði við Akab: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi."

Og orð Drottins kom til hans, svolátandi:

"Far þú héðan og hald austur á bóginn, og fel þig við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.

Og þú skalt drekka úr læknum, og hröfnunum hefi ég boðið að fæða þig þar."

Hann gjörði sem Drottinn bauð honum, fór og settist að við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.

Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kveldin, og úr læknum drakk hann.

En eftir nokkurn tíma þornaði lækurinn upp, því að eigi hafði komið skúr á jörð.

Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi:

"Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig."

10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka."

11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."

12 Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."

13 En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum.

14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð."

15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð.

16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.

17 Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann.

18 Þá mælti hún við Elía: "Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja."

19 En Elía sagði við hana: "Fá þú mér son þinn." Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína.

20 Og hann kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?"

21 Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!"

22 Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.

23 En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: "Sjá þú, sonur þinn er lifandi."

24 Þá sagði konan við Elía: "Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur."

18 Löngu síðar kom orð Drottins til Elía, á þriðja ári þurrksins, svolátandi: "Far og lát Akab sjá þig. Ég ætla að gefa regn á jörð."

Þá fór Elía, til þess að láta Akab sjá sig. Hallærið var mikið í Samaríu.

Kallaði Akab þá Óbadía dróttseta fyrir sig. En Óbadía óttaðist Drottin mjög.

Fyrir því tók Óbadía, þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni.

Akab sagði við Óbadía: "Kom þú, við skulum fara um landið og leita uppi allar vatnslindir og alla læki. Vera má, að við finnum gras, svo að við getum haldið lífinu í hestum og múlum og þurfum ekki að fella nokkurn hluta af skepnunum."

Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina, og Óbadía fór einn sér í hina áttina.

En er Óbadía var á leiðinni, sjá, þá mætti Elía honum. Og er hann þekkti hann, féll hann fram á ásjónu sína og mælti: "Ert það þú, herra minn Elía?"

Hann svaraði honum: "Er ég víst. Far og seg herra þínum: Elía er hér!"

En Óbadía mælti: "Hvað hefi ég misgjört, er þú vilt selja þjón þinn í hendur Akab, svo að hann drepi mig?

10 Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, er engin sú þjóð til og ekkert það konungsríki, að herra minn hafi ekki sent þangað til þess að leita þín, og ef sagt var: ,Hann er hér ekki!` þá lét hann konungsríkið og þjóðina vinna eið að því, að enginn hefði hitt þig.

11 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!`

12 En færi ég nú frá þér, þá mundi andi Drottins hrífa þig, ég veit ekki hvert, og ef ég þá kæmi til þess að segja Akab frá þessu, og hann fyndi þig ekki, þá mundi hann drepa mig, og þó hefir þjónn þinn óttast Drottin í frá barnæsku.

13 Hefir ekki herra minn frétt, hvað ég gjörði, er Jesebel drap spámenn Drottins, að ég fal hundrað manns af spámönnum Drottins, sína fimmtíu manns í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni?

14 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!` til þess að hann drepi mig."

15 En Elía svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna, mun ég láta Akab sjá mig þegar í dag."

16 Þá fór Óbadía til móts við Akab og sagði honum frá þessu. Fór þá Akab til fundar við Elía.

17 En er Akab sá Elía, sagði Akab við hann: "Ert þú þar, skaðvaldur Ísraels?"

18 Elía svaraði: "Eigi hefi ég valdið Ísrael skaða, heldur þú og ætt þín, þar sem þér hafið virt boð Drottins að vettugi og þú elt Baalana.

19 En send þú nú og stefn til mín öllum Ísrael á Karmelfjalli, svo og þeim fjögur hundruð og fimmtíu Baalsspámönnum og þeim fjögur hundruð Aséruspámönnum, er eta við borð Jesebelar."

20 Þá sendi Akab út á meðal allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls.

21 Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: "Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum." En lýðurinn svaraði honum engu orði.

22 Þá mælti Elía til lýðsins: "Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu.

23 Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að.

24 Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð." Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: "Þetta er vel mælt."

25 Þá sagði Elía við spámenn Baals: "Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að."

26 Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: "Baal, svara þú oss!" En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört.

27 En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: "Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna."

28 En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi.

29 En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.

30 Þá sagði Elía við allan lýðinn: "Gangið hingað til mín!" Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið.

31 Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs _ þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!` _

32 og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis.

33 Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn.

34 Því næst mælti hann: "Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn." Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: "Gjörið það aftur." Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: "Gjörið það í þriðja sinn." Og þeir gjörðu það í þriðja sinn.

35 Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni.

36 En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: "Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði.

37 Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra."

38 Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.

39 Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: "Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!"

40 En Elía sagði við þá: "Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!" Og þeir handtóku þá, og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og banaði þeim þar.

41 Síðan mælti Elía við Akab: "Far þú upp eftir, et og drekk, því að ég heyri þyt af regni."

42 Þá fór Akab upp eftir til þess að eta og drekka. En Elía fór efst upp á Karmel, beygði sig til jarðar og setti andlitið milli hnjánna.

43 Því næst sagði hann við svein sinn: "Gakk þú upp og lít út til hafs." Hann gekk upp, litaðist um og mælti: "Það er ekkert að sjá." Elía mælti: "Far þú aftur." Og sveinninn fór aftur og aftur, sjö sinnum.

44 En í sjöunda sinnið sagði hann: "Nú stígur lítið ský, sem mannshönd, upp úr hafinu." Þá sagði Elía: "Far og seg Akab: ,Beit fyrir vagninn og far ofan, svo að regnið teppi þig ekki."`

45 Eftir örskamma stund varð himinninn dimmur af skýjum og vindi, og það kom hellirigning. En Akab steig á vagn sinn og ók til Jesreel.

46 En hönd Drottins hreif Elía, og hann gyrti lendar sínar og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.

47 Meðan hann var enn að tala, kom flokkur manna, og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann.

48 Jesús sagði við hann: "Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?"

49 Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: "Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?"

50 Og einn þeirra hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað.

51 Þá sagði Jesús: "Hér skal staðar nema." Og hann snart eyrað og læknaði hann.

52 Þá sagði Jesús við æðstu prestana, varðforingja helgidómsins og öldungana, sem komnir voru á móti honum: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja?

53 Daglega var ég með yður í helgidóminum, og þér lögðuð ekki hendur á mig. En þetta er yðar tími og máttur myrkranna."

54 En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar.

55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra.

56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: "Þessi maður var líka með honum."

57 Því neitaði hann og sagði: "Kona, ég þekki hann ekki."

58 Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: "Þú ert líka einn af þeim." En Pétur svaraði: "Nei, maður minn, það er ég ekki."

59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: "Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður."

60 Pétur mælti: "Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður." Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani.

61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: "Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér."

62 Og hann gekk út og grét beisklega.

63 En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu,

64 huldu andlit hans og sögðu: "Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?"

65 Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.

66 Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn.

67 Þeir sögðu: "Ef þú ert Kristur, þá seg oss það." En hann sagði við þá: "Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa,

68 og ef ég spyr yður, svarið þér ekki.

69 En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar."

70 Þá spurðu þeir allir: "Ert þú þá sonur Guðs?" Og hann sagði við þá: "Þér segið, að ég sé sá."

71 En þeir sögðu: "Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans."

Read full chapter