Add parallel Print Page Options

Drottinn kallaði á Móse og talaði við hann úr samfundatjaldinu og mælti:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar einhver af yður vill færa Drottni fórn, þá skuluð þér færa fórn yðar af fénaðinum, af nautum og sauðum.

Sé fórn hans brennifórn af nautum, skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. Skal hann leiða það að dyrum samfundatjaldsins, svo að hann verði Drottni velþóknanlegur.

Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð brennifórnarinnar, að hún afli honum velþóknunar og friðþægi fyrir hann.

Síðan skal hann slátra ungneytinu frammi fyrir Drottni. En synir Arons, prestarnir, skulu fram bera blóðið, og skulu þeir stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið, sem stendur við dyr samfundatjaldsins.

Þá flái hann brennifórnina og hluti hana sundur.

En synir Arons, prestarnir, skulu gjöra eld á altarinu og leggja við á eldinn.

Og synir Arons, prestarnir, skulu raða stykkjunum, höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.

En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn brenna það allt á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.

10 Sé fórnargjöf sú, er hann fram ber til brennifórnar, af sauðfénaði, af sauðkindum eða geitum, þá skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust.

11 Og skal hann slátra því við altarið norðanvert frammi fyrir Drottni, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu úr því utan á altarið allt í kring.

12 Síðan skal hann hluta það sundur, og skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.

13 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn fram bera það allt og brenna á altarinu. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.

14 Vilji hann færa Drottni brennifórn af fuglum, þá taki hann til fórnar sinnar turtildúfur eða ungar dúfur.

15 Skal presturinn bera fuglinn að altarinu og klípa af höfuðið og brenna það á altarinu, en blóðið skal kreista út á altarishliðina.

16 Og hann skal taka sarpinn með fiðrinu á og kasta honum við austurhlið altarisins, þar sem askan er látin.

17 Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.

Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það.

Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.

En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.

Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.

En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað.

Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn.

En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu.

Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu.

En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.

10 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.

11 Engin matfórn, sem þér færið Drottni, skal gjörð af sýrðu deigi, því að ekkert súrdeig eða hunang megið þér brenna sem eldfórn Drottni til handa.

12 Í frumgróðafórn megið þér færa það Drottni, en upp að altarinu má eigi bera það til þægilegs ilms.

13 Allar matfórnir þínar skalt þú salti salta, og þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera.

14 Færir þú Drottni frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum.

15 Og þú skalt hella olíu yfir hana og leggja reykelsiskvoðu ofan á; þá er það matfórn.

16 Og presturinn skal brenna ilmhluta hennar, nokkuð af hinu mulda korni og olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, til eldfórnar fyrir Drottin.

Sé fórn hans heillafórn og færi hann hana af nautpeningi, hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns, þá sé það gallalaust, er hann fram ber fyrir Drottin.

Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir dyrum samfundatjaldsins, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.

Skal hann síðan færa Drottni eldfórn af heillafórninni: netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,

bæði nýrun og nýrnamörinn, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.

Og synir Arons skulu brenna það á altarinu ofan á brennifórninni, sem liggur ofan á viðinum, sem lagður er á eldinn, til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.

Sé fórnargjöfin, sem hann færir Drottni að heillafórn, af sauðfénaði, þá sé það, er hann fram ber, gallalaust, hvort heldur það er karlkyns eða kvenkyns.

Færi hann sauðkind að fórnargjöf, þá færi hann hana fram fyrir Drottin.

Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.

Skal hann síðan af heillafórninni færa Drottni í eldfórn mörinn úr henni: rófuna alla _ skal taka hana af fast við rófubeinið, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,

10 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.

11 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórnarmat Drottni til handa.

12 Sé fórnargjöf hans geitsauður, þá skal hann færa hann fram fyrir Drottin,

13 leggja hönd sína á höfuð hans og slátra honum fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið.

14 Því næst skal hann fram bera af honum sem fórnargjöf, sem eldfórn Drottni til handa, netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn,

15 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá.

16 Og presturinn skal brenna það á altarinu sem eldfórnarmat þægilegs ilms; allur mör heyrir Drottni til.

17 Skal það vera ævinlegt lögmál hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar: Þér skuluð engan mör og ekkert blóð eta."