Add parallel Print Page Options

22 Svo mælti Drottinn: Gakk þú ofan að höll Júdakonungs og flyt þar þessi orð

og seg: Heyr orð Drottins, konungur í Júda, þú sem situr í hásæti Davíðs, þú og þjónar þínir og lýður þinn, þeir sem ganga inn um þessi hlið!

Svo segir Drottinn: Iðkið rétt og réttlæti og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans. Undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og hafið ekki órétt í frammi, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað.

Því ef þér gjörið þetta, munu inn um hlið þessa húss fara konungar, er sitja í hásæti Davíðs sem eftirmenn hans, akandi í vögnum og ríðandi á hestum _ konungurinn sjálfur, þjónar hans og lýður hans.

En ef þér hlýðið ekki þessum orðum, þá sver ég við sjálfan mig _ segir Drottinn _ að höll þessi skal verða að eyðirúst.

Svo segir Drottinn um höll Júdakonungs: Þú ert mér sem Gíleað, sem Líbanonstindur. Vissulega vil ég gjöra þig að eyðimörk, eins og óbyggðar borgir,

og vígja spillvirkja í móti þér, hvern með sín vopn, til þess að þeir höggvi þín ágætu sedrustré og varpi þeim á eldinn.

Margar þjóðir skulu ganga fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þessa miklu borg?"

Og þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs síns, og féllu fram fyrir öðrum guðum og þjónuðu þeim."

10 Grátið ekki þann, sem dauður er, og harmið hann ekki. Grátið miklu heldur þann, sem burt er farinn, því að hann mun aldrei koma heim aftur og sjá ættland sitt.

11 Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur,

12 heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta.

13 Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans,

14 sem segir: "Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!" og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt!

15 Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel.

16 Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? _ segir Drottinn.

17 En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun.

18 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, bróðir minn! Æ, systir!" Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, herra! Æ, vegsemd hans!"

19 Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem.

20 Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir.

21 Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: "Ég vil ekki heyra!" Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu.

22 Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar.

23 Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu.

24 Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _ þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan.

25 Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea.

26 Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja,

27 en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast.

28 Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki?

29 Ó land, land, land, heyr orð Drottins!

30 Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.

23 Vei hirðunum, sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni! segir Drottinn.

Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um hirðana, sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki litið eftir þeim. Sjá, ég skal vitja vonskuverka yðar á yður _ segir Drottinn.

En ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá, og leiða þá aftur í haglendi þeirra, og þeir skulu frjóvgast og þeim fjölga.

Og ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða _ segir Drottinn.

Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu.

Á hans dögum mun Júda hólpinn verða og Ísrael búa óhultur, og þetta mun verða nafn hans, það er menn nefna hann með: "Drottinn er vort réttlæti!"

Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að menn munu eigi framar segja: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!"

heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi og flutti heim niðja Ísraels húss úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hafði rekið þá, svo að þeir mættu búa í landi sínu!"

Um spámennina: Hjartað í brjósti mér er sundurmarið, öll bein mín skjálfa. Ég er eins og drukkinn maður, eins og maður sem vínið hefir bugað, vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.

10 Landið er fullt af hórkörlum, já, vegna bölvunarinnar syrgir landið, og beitilöndin í öræfunum eru skrælnuð. Þeir hlaupa á eftir vonsku og styrkur þeirra er ósannsögli.

11 Bæði spámenn og prestar eru guðlausir, jafnvel í húsi mínu hefi ég rekið mig á vonsku þeirra _ segir Drottinn.

12 Fyrir því mun vegur þeirra verða þeim eins og sleipir staðir í myrkri. Þeim skal verða hrundið, svo að þeir detti á honum, því að ég leiði óhamingju yfir þá árið sem þeim verður refsað _ segir Drottinn.

13 Hjá spámönnum Samaríu sá ég hneykslanlegt athæfi: Þeir spáðu í nafni Baals og leiddu lýð minn Ísrael afvega.

14 En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra.

15 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo um spámennina: Sjá, ég vil gefa þeim malurt að eta og eiturvatn að drekka, því að frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi breiðst út um allt landið.

16 Svo segir Drottinn allsherjar: Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni.

17 Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: "Yður mun heill hlotnast!" Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: "Engin ógæfa mun yfir yður koma!"

18 Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau?

19 Sjá, stormur Drottins brýst fram _ reiði og hvirfilbylur _ hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

20 Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega.

21 Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir.

22 Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum.

23 Er ég þá aðeins Guð í nánd _ segir Drottinn _ og ekki Guð í fjarlægð?

24 Getur nokkur falið sig í fylgsnum, svo að ég sjái hann ekki? _ segir Drottinn. Uppfylli ég ekki himin og jörð? _ segir Drottinn.

25 Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: "Mig dreymdi, mig dreymdi!"

26 Hversu lengi á þetta svo að ganga? Ætla spámennirnir, þeir er boða lygar og flytja tál, er þeir sjálfir hafa upp spunnið _

27 hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals?

28 Sá spámaður, sem dreymir draum, segi drauminn, og sá, sem hefir mitt orð, flytji hann mitt orð í sannleika. Hvað er sameiginlegt hálmstrái og korni? _ segir Drottinn.

29 Er ekki orð mitt eins og eldur _ segir Drottinn _ og eins og hamar, sem sundurmolar klettana?

30 Sjá, þess vegna skal ég finna spámennina _ segir Drottinn _ sem stela orðum mínum hver frá öðrum.

31 Ég skal finna spámennina _ segir Drottinn _ sem taka til sinnar eigin tungu til þess að umla guðmæli.

32 Ég skal finna spámennina, sem kunngjöra lygadrauma _ segir Drottinn _ og segja frá þeim og leiða þjóð mína afvega með lygum sínum og gorti, og þó hefi ég ekki sent þá og ekkert umboð gefið þeim, og þeir gjöra þessari þjóð alls ekkert gagn _ segir Drottinn.

33 Þegar þessi lýður spyr þig, eða einhver spámaðurinn eða einhver presturinn, og segir: "Hver er byrði Drottins?" þá skalt þú segja við þá: Þér eruð byrðin, og ég mun varpa yður af mér _ segir Drottinn.

34 En sá spámaður og sá prestur og sá lýður, sem talar um "byrði Drottins" _ slíks manns vil ég vitja og húss hans.

35 Svo skuluð þér segja hver við annan og einn við annan: "Hverju hefir Drottinn svarað?" eða "Hvað hefir Drottinn sagt?"

36 En "byrði Drottins" skuluð þér ekki framar nefna, því að hverjum manni munu þau orð hans verða "byrði", þar sem þér hafið rangfært orð hins lifanda Guðs, Drottins allsherjar, vors Guðs.

37 Svo skulu menn segja við spámanninn: "Hverju hefir Drottinn svarað þér?" eða "Hvað hefir Drottinn sagt?"

38 En ef þér talið um "byrði" Drottins _ þá segir Drottinn svo: Af því að þér viðhafið þetta orð "byrði Drottins", þótt ég gjörði yður þá orðsending: Þér skuluð ekki tala um "byrði Drottins" _

39 sjá, fyrir því vil ég hefja yður upp og varpa yður og borginni, sem ég gaf yður og feðrum yðar, burt frá mínu augliti.

40 Og ég legg á yður eilífa smán og eilífa skömm, sem aldrei mun gleymast.

Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu

í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,

en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.

Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.

Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.

Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.

Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.

Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.

Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.

10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn,

11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.

12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."

13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni,

14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.

15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.

16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.