Add parallel Print Page Options

44 Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið.

Svo segir Drottinn, sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér: Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið.

Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt.

Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum.

Einn mun segja: "Ég heyri Drottni," annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína "Helgaður Drottni" og kenna sig við Ísrael.

Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.

Hver er sem ég _ hann segi frá því og sanni mér það _ frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun!

Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.

Read full chapter