Add parallel Print Page Options

Og enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá.

Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá er fyrir löngu eru dánir, í samanburði við hina lifandi, þá er enn eru á lífi,

en sælli en þessa hvora tveggja þann, sem enn er ekki til orðinn og ekki hefir séð þau vondu verk, sem framin eru undir sólinni.

Og ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

Heimskinginn spennir greipar og etur sitt eigið hold.

Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.

Og enn sá ég hégóma undir sólinni:

Maður stendur einn og enginn annar með honum, hann á hvorki son né bróður, og þó er enginn endir á öllu striti hans, og augu hans mettast ekki á auðlegð. En fyrir hvern er ég þá að stritast og fyrir hvern læt ég þá sál mína fara góðs á mis? Einnig þetta er hégómi og leið þraut.

Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt.

10 Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur.

11 Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt, en sá sem er einn, hvernig getur honum hitnað?

12 Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.

13 Betri er fátækur unglingur, sé hann vitur, heldur en gamall konungur, sé hann heimskur og þýðist eigi framar viðvaranir.

14 Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur, þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars.

15 Ég sá alla lifandi menn, þá er gengu undir sólinni, vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað.

16 Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim, er hann var fyrir. Þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum. Því að einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

17 Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra, heldur en að heimskingjar færi sláturfórn; því að þeir vita ekkert og gjöra það sem illt er.

Vertu ekki of munnhvatur, og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði, því að Guð er á himnum, en þú á jörðu, ver því eigi margorður.

Því að draumar koma, þar sem áhyggjurnar eru miklar, og heimskutal, þar sem mörg orð eru viðhöfð.

Þegar þú gjörir Guði heit, þá fresta þú eigi að efna það, því að hann hefir eigi velþóknun á heimskingjum. Efn það er þú heitir.

Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki.

Leyf eigi munni þínum að baka líkama þínum sekt og seg eigi við sendiboðann: Það var fljótfærni! Hvers vegna á Guð að reiðast tali þínu og skemma verk handa þinna?

Því að þar sem mikið er um drauma og orð, þar er og mikill hégómi. Óttastu heldur Guð!

Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er rænt í héraðinu, þá furða þú þig ekki á því athæfi, því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum.

Konungur, sem gefinn er fyrir jarðyrkju, er í alla staði ávinningur fyrir land.

Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi.

10 Þar sem eigurnar vaxa, þar fjölgar og þeim er eyða þeim, og hvaða ábata hefir eigandinn af þeim annan en að horfa á þær?

11 Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.

12 Til er slæmt böl, sem ég hefi séð undir sólinni: auður sem eigandinn varðveitir sjálfum sér til ógæfu.

13 Missist þessi auður fyrir slys, og hafi eigandinn eignast son, þá verður ekkert til handa honum.

14 Eins og hann kom af móðurlífi, svo mun hann nakinn fara burt aftur eins og hann kom, og hann mun ekkert á burt hafa fyrir strit sitt, það er hann taki með sér í hendi sér.

15 Einnig það er slæmt böl: Með öllu svo sem hann kom mun hann aftur fara, og hvaða ávinning hefir hann af því, að hann stritar út í veður og vind?

16 Auk þess elur hann allan aldur sinn í myrkri og við sorg og mikla gremju og þjáning og reiði.

17 Sjá, það sem ég hefi séð, að er gott og fagurt, það er, að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu, því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því að það er hlutdeild hans.

18 Og þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi og auðæfi og gjörir hann færan um að njóta þess og taka hlutdeild sína og að gleðjast yfir starfi sínu, þá er og það Guðs gjöf.

19 Því að slíkur maður hugsar ekki mikið um ævidaga lífs síns, meðan Guð lætur hann hafa nóg að sýsla við fögnuð hjarta síns.

Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, og það liggur þungt á mönnunum:

Þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi, auðæfi og heiður, svo að hann skortir ekkert af því er hann girnist, en Guð gjörir hann ekki færan um að njóta þess, heldur nýtur annar maður þess _ það er hégómi og vond þjáning.

Þótt einhver eignaðist hundrað börn og lifði mörg ár, og ævidagar hans yrðu margir, en sál hans mettaðist ekki af gæðum og hann fengi heldur enga greftrun, þá segi ég: Ótímaburðurinn er sælli en hann.

Því að hann er kominn í hégóma og fer burt í myrkur, og nafn hans er myrkri hulið.

Hann hefir ekki heldur séð sólina né þekkt hana, hann hefir meiri ró en hinn.

Og þótt hann lifi tvenn þúsund ár, en njóti einskis fagnaðar, fer ekki allt sömu leiðina?

Allt strit mannsins er fyrir munn hans, og þó seðst girndin aldrei.

Því að hvaða yfirburði hefir spekingurinn fram yfir heimskingjann? hvaða yfirburði hinn snauði, er kann að ganga frammi fyrir þeim sem lifa?

Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

10 Það sem við ber, hefir fyrir löngu hlotið nafn sitt, og það er ákveðið, hvað menn eiga að verða, og maðurinn getur ekki deilt við þann sem honum er máttkari.

11 Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann _ hvað er maðurinn að bættari?

12 Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag undir sólinni?